fim 04. febrúar 2016 12:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Liðið „mitt“
Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar:
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Runólfur Trausti Þórhallsson.
Runólfur Trausti Þórhallsson.
Mynd: Samsett
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Þeir sem þekkja mig vita að ég er vægast sagt knattspyrnuóður. Er þessi týpa af stuðningsmanni sem mætir að horfa á æfingaleiki og æfingarmót í janúar - febrúar þegar knattspyrnan minnir meira á boccia mót á Grund heldur en knattspyrnuna sem boðið er upp á í sjónvarpi landsmanna.

Ástæðan fyrir þessu er frekar einföld; að horfa á knattspyrnu er hreinlega það skemmtilegasta sem ég geri. Að velta mér upp úr henni, pæla í taktík, pæla í stuðningsmönnunum í stúkunni og svo tala ég nú ekki um tilfinninga rússíbanann sem fylgir sumum leikjum. Vissulega hef ég róast með árunum en sumir leikir fara hreinlega með mann, upp í hæstu hæðir og svo beint aftur niður.

Það er þó ekki alltaf ástæðan fyrir því að ég ákveð að keyra úr Vesturbæ Reykjavíkur upp í Grafarvog eða lengst inn í Kópavog til að horfa á boccia ... eða fótbolta. Oftar en ekki fer ég þó því ég þekki einhvern í liðinu, og langar að sjá hvernig þeim gengur. Þau tengsl nota ég til að afsaka það að ég sé að horfa á 90 mínútur af boccia ... fótbolta, frekar en að vera heima að læra eða gera eitthvað uppbyggilegt.

Þeir sem þekkja mig vita líka að ég KR-ingur, og frekar blóðheitur sem slíkur. Er þessi týpíski, hrokafulli KR-ingur sem enginn þolir. Veit alltaf betur en allir og tala reglulega um hvað KR hefur unnið marga titla, þó svo að meiri hlutinn hafi unnist þegar Íslandsmótið innihélt 4-5 lið. Ég meina, það er ekki mér að kenna að hin liðin í úthverfum Reykjavíkur voru ekki til. Þið skiljið hvað ég á við.

Allavega, undanfarin ár hef ég farið reglulega á KR leiki, sama hvort það er í janúar, febrúar eða um mitt sumar. Ég reyni að fara á alla heimaleiki og alla útileiki innan bæjarmarka, því miður hefur vinna (og almenn leiðindi) oft orsakað það að ég hef misst af útileikjum út á landi og frægum Evrópuleikjum eins og margrómuðum Basel leik sem KR spilaði árið 2009. Á umræddum unglingsárum þá var ég hluti af stuðningsmanna sveit KR sem kallar sig Miðjan og skemmti mér konunglega á leikjum, þó svo að árangurinn hafi ekki verið frábær. Liðið rétt slapp við fall 2007, lenti í 4. sæti 2008 en náðu svo 2. sæti 2009.

Árangurinn eftir 2009 hefur ekki verið slæmur, í raun hefur hann verið góður og árin 2011-2015 vann liðið annað hvort deildina eða bikarinn (eða bæði). Hins vegar hefur áhugi minn á liðinu dvínað jafnt og þétt núna síðustu tvö til þrjú ár. Í fyrra missti ég af fullt af leikjum sökum vinnu, og í fyrsta skipti var mér alveg sama. Þið verðið að átta ykkur á því að þetta er sami maður og hætti í vinnunni fyrir þó nokkrum árum þegar yfirmaðurinn ætlaði ekki að gefa honum frí til þess að fara á KR leik.

Það var ekki bara árangurinn og von um góðan fótbolta sem dró mann á völlinn heldur var það félagsskapurinn utan vallar sem og það að manni fannst maður vera tengdur liðinu því maður hafði æft með einhverjum af strákunum á vellinum í gegnum árin. Þar af leiðandi fannst manni extra gaman þegar það gekk vel en fyrirgaf þeim líka þeim mun fyrr þegar það gekk illa.

Ég átta mig samt sem áður á því að þessi rök ganga ekki upp þegar maður er kominn yfir fertugt. þar sem flestir gamlir liðsfélagar eru hættir að spila á þeim aldri. En mig grunar að þá færist ánægjan, ef til vill er sonur vinar þíns í liðinu, eða nágranni, og þar fram eftir götunum. Þið skiljið hvað ég á við, það er alltaf auðveldara, og skemmtilegra, að fylgjast með uppöldum leikmönnum heldur en þeim sem nota félagið sem stökkpall eða sem hraðbanka. Og það er í raun aðalpunkturinn í þessu öllu saman hjá mér.

Ég ber vissulega virðingu fyrir KR-liðinu og þeim leikmönnum sem eru þar en fyrir mína parta þá er nánast öll tenging við áhorfendur að hverfa og áhugi þó nokkra stuðningsmanna að hverfa. Uppaldir leikmenn hverfa á braut og inn kemur hver Daninn á fætur öðrum eða þá leikmenn utan af landi sem enginn býst við að stoppi lengur en tvö tímabil. Auðvitað eru þó alltaf leikmenn sem koma til félagsins og enda á sama stalli og uppöldu leikmennirnir en þeim fer fækkandi, hratt. Sem stendur eru í rauninni aðeins tveir uppaldir leikmenn sem ég býst við að sjá spila með KR-liðinu í sumar, þar fyrir utan verða líklega 4-5 útlendingar í byrjunarliðinu.

Eins útópísk pæling og það er að búa til lið eingöngu á heimamönnum sem getur unnið deildina þá er vissulega alltaf einhver millivegur. KR-liðið sem vann bæði deild og bikar árið 2011 er líklega besta dæmið, þar voru fimm uppaldir leikmenn í lykilhlutverki (15leikir eða meira) og aðrir sex sem spiluðu í deildinni. Vissulega var þarna um mjög góða uppalda leikmenn að ræða en enn og aftur þá er það þessi millivegur. Ég lifi í þeirri trú að uppaldir leikmenn séu tilbúnir að leggja meira á sig fyrir liðið heldur en hinn hefðbundni aðkomumaður sem stekkur frá borði þegar illa gengur.

FH-liðið sem varð meistari núna síðasta sumar var í svipuðum pakka og KR árið 2011, þeir voru með allt að 10 uppalda leikmenn í liðinu og allavega fimm þeirra voru í lykilhlutverki. Þeir sem voru ekki í lykilhlutverki voru samt tilbúnir að sitja á bekknum og vera til taks þegar á þurfti, því þetta er jú þeirra lið. Stjörnuliðið sem vann 2014 er svo enn eitt dæmið, vissulega voru þeir með heilan her af útlendingum en það voru samt sem áður 10 uppaldir Stjörnumenn sem spiluðu deildarleik fyrir þá það tímabil. Og það segir mér enginn að uppgangur Silfurskeiðarinnar sé ekki aðeins tengdur því að flestir strákanna þar þekkja og æfðu ef til vill með allavega 3-4 af þeim strákum sem eru inn á vellinum.

Þannig að lokapunkturinn er sá að mér finnst þessi þróun í Vesturbænum mjög súr og ég efast um að ég muni svekkja mig á því að missa af leikjum næsta sumar, mun helst sakna burgersins fyrir leik!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner