fim 04. febrúar 2016 23:25
Ívan Guðjón Baldursson
Myndband: Börsungar fögnuðu innkomu Cheryshev
"Cheryshev te quiero" var sungið á pöllunum, eða ,,Cheryshev, við elskum þig".
Mynd: Getty Images
Barcelona slátraði Valencia í spænska Konungsbikarnum þar sem Luis Suarez skoraði fjögur og Lionel Messi þrjú.

Denis Cheryshev er nýkominn til Valencia frá Real Madrid og kom inná í síðari hálfleik viðureignarinnar.

Stuðningsmenn Börsunga fögnuðu innkomu Cheryshev af miklum eldmóð eins og má sjá á myndböndunum hér fyrir neðan, en það er vegna þess að hann er ástæðan fyrir því að Real Madrid var hent úr Konungsbikarnum.

Cheryshev byrjaði leik Real gegn Cadiz í bikarnum í haust og þá kom í ljós að hann átti að vera í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald sem leikmaður Villarreal tímabilið áður.

Real var dæmt úr leik þrátt fyrir að leggja Cadiz að velli og því skiljanlegt að stuðningsmenn erkifjendanna í Barcelona hafi fagnað honum á Camp Nou.

Í fyrra myndbandinu má sjá stuðningsmenn Barcelona fagna innkomu Cheryshev frá stúkunni, en í því síðara er hægt að heyra fagnaðarlætin sem brutust út við innkomu hans eftir um það bil eina mínútu af myndbandinu.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner