Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 04. maí 2016 17:15
Magnús Már Einarsson
Þórður Þórðar: Efast um að sérfræðingar hafi fylgst með
Þórður Þórðarson.
Þórður Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA vann 1. deildina í fyrra.
ÍA vann 1. deildina í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
„Ef að sérfræðingar ykkar hafa fylgst með okkur í vetur, sem ég efast um, þá hefur okkur gengið betur en nokkrum liðum sem spila í efstu deild í Lengjubikarnum," sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA þegar hann var spurður út í spá Fótbolta.net fyrir Pepsi-deild kvenna. Þar er nýliðum ÍA spáð botnsætinu.

„Okkur hefur gengið ágætlega í vetur. 2. sæti í B deild Lengjubikars er ágætis árangur. En við fáum reyndar enginn stig fyrir það í sumar. Við erum með mjög ungt lið sem miklar breytingar hafa orðið á milli ára og til að mynda erum við með yngra lið en fyrir tveimur árum þegar við spiluðum í Pepsi-deildinni síðast. En spá er bara spá."

ÍA sigraði 1. deildina í fyrra en miklar breytingar hafa orðið á hópnum í sumar.

„Við erum til að mynda búinn að missa 10 leikmenn milli ára og eru 7 af þeim leikmenn sem spiluðu yfir 70% af leikjunum í fyrra, þetta eru miklar breytingar milli ára. Við erum með nánast nýtt lið milli ára. Þessi vetur er búinn að vera mikið púsluspil hjá okkur. Þetta verður erfitt en umfram allt skemmtilegt."

„Stelpurnar hafa verið mjög duglegar í vetur að æfa. Þær hafa lagt mikið á sig og vonandi mun það skila sér í áframhaldandi veru í efstu deild 2017."


Möguleiki er á að ÍA fái liðsstyrk áður en mótið hefst. „Við skulum ekkert útiloka það, við erum að skoða nokkra hluti núna, en svo kemur í ljós hvað verður á næstu dögum. Við verðum allavega klár þegar fyrsti leikur hefst hjá okkur 14.maí. Okkur hlakkar mikið til þess að mótið byrji."

Þórður segir að markmiðið sé skýrt fyrir sumarið. „Númer 1, 2 og 3 er markmið okkar að halda okkur í deildinni, við gerum okkur alveg grein fyrir því að það verður erfitt, en við munum gera okkar besta til að svo verði. Það eru nokkur lið sem að ég held að verði á svipuðu róli og við í sumar," sagði Þórður sem býst við hörkudeild.

„Valur, Stjarnan og Breiðablik eru með mestu breiddina, mikið af landsliðsmönnum og þangað hafa bestu leikmennirnir safnast saman síðustu ár. Síðan kemur yfirleitt eitt til tvö lið á óvart og blandar sér í topp fimm."
Athugasemdir
banner
banner
banner