Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 04. maí 2016 10:15
Elvar Geir Magnússon
Úlfur Arnar: Bjarni áfram skemmtilegastur í klefanum
Úlfur Arnar Jökulsson.
Úlfur Arnar Jökulsson.
Mynd: Mosfellingur - Raggi Óla
„Nei spáin kemur ekki á óvart. Ég bjóst við að okkur yrði spáð í topp fjóra," segir Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Aftureldingar, sem spáð er þriðja sæti 2. deildar í sumar.

„Ég tel hópinn vera mjög svipaðan og í fyrra. Helsti styrkleiki liðsins er samheldni og stöðugleiki frá því í fyrra. Flestir í liðinu hafa æft og spilað saman lengi núna og menn þekkja sín hlutverk betur."

Hvernig er fótboltaáhuginn í Mosfellsbæ?

„Hann mætti vera meiri. En áhuginn helst í hendur við árangur í íþróttum. Sem dæmi er mikill handboltaáhugi núna í Mosfellsbæ enda strákarnir í handboltanum að standa sig gríðarlega vel. Ef við í fótboltanum stöndum okkur vel í sumar og náum góðum úrslitum þá mun áhuginn á liðinu aukast, annars ekki. Við skulum segja að það hafi ekki beint verið uppselt á leiki hjá okkur síðasta sumar."

Markvörðurinn Bjarni Þórður Halldórsson gekk í raðir Aftureldingar í vetur en hann hefur undanfarin ár spilað með Fylki í Pepsi-deildinni. Bjarni getur þó ekki byrjað tímabilið.

„Bjarni Þórður greindist með brjósklos í síðustu viku. Það er mikið áfall fyrir hann sjálfan sem og liðið en það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði. Það verður einhver toppmaður í markinu á föstudaginn og Bjarni verður áfram skemmtilegastur í klefanum og verður nýjum markverði til halds og trausts sem markmannsþjálfari," segir Úlfur en Afturelding hefur leik gegn KV.

Hvernig býst hann við því að deildin muni spilast?

„Ég held að Grótta og ÍR fljúgi upp í 1. deild en Höttur og KV munu ógna efstu tveimur sætunum líka enda hafa þau lið styrkt sig mikið í vetur. Magni og Sindri munu koma á óvart."
Athugasemdir
banner
banner
banner