þri 04. ágúst 2015 22:15
Magnús Már Einarsson
„Kærastan lofaði að fara á leik þegar ég myndi hætta að reykja"
Stuðningsmaður Leicester - Guðmundur Heiðar Eyþórsson
Guðmundur Heiðar Eyþórsson.
Guðmundur Heiðar Eyþórsson.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Úr einkasafni
Treyja Leicester frá 1994 til 1996.
Treyja Leicester frá 1994 til 1996.
Mynd: Úr einkasafni
Fótbolti.net mun hita vel upp fyrir keppni í ensku úrvalsdeildina sem hefst á laugardaginn. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Leicester bjargaði sér frá falli á síðustu stundu í vor og er spáð 17. sæti á komandi tímabili.

Guðmundur Heiðar Eyþórsson er harður Leicester maður og hann svaraði nokkrum spurningum fyrir tímabilið sem er framundan.

Ég byrjaði að halda með Leicester af því að...
Ég byrjaði að halda með Leicester þegar ég var að detta á unglingsaldurinn. Það var einhver blanda af því að halda með „underdog“ og synda á móti straumnum, þegar flestir jafnaldrar héldu með Manchester United, Liverpool, Arsenal eða öðrum af stóru klúbbunum ákvað ég að taka hanskann upp fyrir Leicester City. Það voru bæði skemmtilegir karektar í liðinu og góðir leikmenn, eins og Robbie Savage, Muzzy Izzet, ungur Emily Heskey, Neil Lennon, Matt Elliot og góður stjóri, Martin O´Neill, sem hrifu mig.
Ef einhvertíman þá var seinni hluti 10. áratugarins tíminn til að halda með Leicester, tveir Deildarbikarar, ágætis árangur í deild og þátttaka í Evrópukeppni. Það má segja að þetta hafi verið stærstu stundinar sem stuðningsmaður. En eftir aldamót fór að halla undan fæti hjá mínum mönnum, fyrst þegar Martin O´Neill hvarf á braut og í kjölfarið margir lykilmenn. Eigendaskipti, tíð stjóraskipti og fjárhagserfiðleikar einkenndu stóran hluta 1. áratug 21. aldarinnar og lágpunkturinn var þegar liðið féll árið 2008 í League 1 (C deild) í fyrsta skipti í sögu liðsins. Síðan þá hefur þetta frekar þokast upp á við þó svo ákveðin atvik undanfarið hafa farið misvel í mig.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila?
Nei ekki ennþá en þar sem kærastan var búin að lofa mér að fara með mig á leik þegar ég myndi hætta að reykja býst ég fastlega við því að við förum á komandi tímabili þar sem ég hef verið reyklaus í fleiri mánuði. Stemmingin á King Power vellinum er víst frábær og stuðningsmennirnir standa þétt við bakið á liðinu sama á hverju gengur.

Uppáhalds leikmaður í liðinu í dag?
Leicester liðið er gríðarlega jafnt að getu en ef ég ætti að taka einhvern út er það Jamie Vardy. Hann er með rétta hugarfarið, kraft, áræðni og svo getur hann skorað mörk enda kominn í landsliðshóp Englendinga.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við?
Ég er nokkuð sáttur við liðið eins og það er í dag en fyrir mánuði hefði ég sagt Paul Konchesky. Ranieri hefur hinsvegar sagt að Konchesky sé ekki í hans plönum og honum sé frjálst að fara. Svo eru þarna nokkrir sem ég er ekki viss um að séu færir um að spila í úrvalsdeildinni eins og Dean Hammond og Marcin Wasilewski.


Það eru tvö nöfn sem koma upp í hugann en það eru Ghana maðurinn Jeff Schulpp og Alsír-búinn Riyad Mahrez. Báðir uxu, að mér fannst gríðarlega síðasta tímabil og ég gæti trúað að þeir ættu eftir að spila stórt hlutverk á komandi tímabili.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja...
Ég myndi sennilega leita í raðir meistaranna og velja Eden Hazard eða Cesc Fabregas. Ég slægi heldur ekki hendinni á móti Kun Aguero.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann?
Það er nú ekki kominn reynsla á hann ennþá en það fylgja honum blendnar tilfinningar. Það er ljóst að hann er reynslumikill enda stjórnað toppliðum í flestum stærstu deildum Evrópu. Árangur hans undanfarið er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir en tíminn einn á eftir að leiða í ljós hvort hann er rétti maðurinn í starfið.

Er mikill söknuður í Esteban Cambiasso?
Þar sem hann bar oft á tíðum liðið á herðum sér síðasta tímabil er ekki hægt að neita því að hans er saknað. Það sem verra er að ég sé ekki að annar eins leikmaður sé á lausu.Við skulum samt bíða og sjá hvort Ranieri lumi á einhverju trompi, hann kynnti jú Gianfranco Zola fyrir fótboltaheiminum.

Hvað finnst þér um Vichai Srivaddhanaprabha eiganda Leicester?
Ég hafði mínar efasemdir um hann enda ómögulegt að bera þetta nafn fram. Það voru samt sennilega flestir betri en Serbneski viðskiptajöfurinn Milan Mandaric sem virtist hafa eitt og annað óhreint í pokahorninu og í plönum sínum.

Nýjasta útspilið að láta Nigel Pearson fara kom á óvart en það hefur ekki enn verið gefið upp hversvegna, þó svo líklegt megi teljast að ferð liðsins til Tælands í sumar og það sem gerðist þar spili stærstan þátt í uppsögninni og má vera að þessi niðurstaða hafi verið það eina í stöðunni. Einnig eru þær sögusagnir um að hann hafi þegar verið búinn að reka Pearson í febrúar en hafi verið fenginn ofan af því gefur mér smá von um að hann hlusti á rök annar sem meiri vit hafa á íþróttinni en hann sjálfur. Það virðist vera nóg af peningum og því miður spilar það alltaf stærri rullu í þessu svo það má vel vera að þetta sé rétti maðurinn.

Í hvaða sæti mun Leicester enda á tímabilinu?
Takmarkið hlýtur alltaf að gera betur en í fyrra. Annað tímabilið í úrvalsdeildinni er oft erfitt fyrir lið en það er vonandi að liðið verði ekki að glíma við falldrauginn og sigli lygnan sjó. Segjum 10-12. sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner