sun 04. desember 2016 08:00
Arnar Geir Halldórsson
Suarez: Vonandi fer Real að tapa stigum
Svekkjandi niðurstaða
Svekkjandi niðurstaða
Mynd: Getty Images
Luis Suarez var svekktur með jafnteflið gegn Real Madrid í gær en Madridingar jöfnuðu á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

Úrugvæinn hafði komið Börsungum yfir í upphafi síðari hálfleiks og hann kveðst ánægður með spilamennsku liðsins í leiknum.

„Við vorum frábærir og sköpuðum fullt af færum en svona hlutir gerast í fótbolta. Ef þér tekst ekki að komast í 2-0 getur þetta alltaf komið fyrir."

„Við töpuðum tveim stigum en liðið gerði allt sem það gat til að ná í þrjú stig. Þetta var opinn leikur og þeim tekst að jafna á síðustu mínútunni,"
segir Suarez.

Börsungar eru því enn sex stigum á eftir Real Madrid þegar fjórtán umferðir eru búnar af mótinu en Madridarliðið er enn taplaust í deildinni.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að vinna heimaleikina okkar og við vitum það. Nú er bara að halda áfram og vonandi fer Real Madrid að tapa stigum," segir Suarez.
Athugasemdir
banner
banner