banner
   mán 05. mars 2018 22:01
Ívan Guðjón Baldursson
England: Mögnuð endurkoma Man Utd á Selhurst Park
Mynd: Getty Images
Crystal Palace 2 - 3 Manchester United
1-0 Andros Townsend ('11)
2-0 Patrick van Aanholt ('48)
2-1 Chris Smalling ('55)
2-2 Romelu Lukaku ('76)
2-3 Nemanja Matic ('91)

Andros Townsend kom Crystal Palace yfir snemma leiks er liðið fékk Manchester United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni.

Townsend tók viðstöðulaust skot fyrir utan vítateig eftir sendingu frá Christian Benteke og fór boltinn af varnarmanni Man Utd og í bláhornið þar sem David De Gea kom engum vörnum við.

Það gekk ekkert upp hjá Rauðu djöflunum í fyrri hálfleik og verðskulduðu heimamenn að vera marki yfir í leikhlé.

Patrick van Aanholt tvöfaldaði forystu Crystal Palace snemma í síðari hálfleik þegar hann slapp í gegn eftir aukaspyrnu Jeffrey Schlupp. Vörn gestanna sofnaði og var Schlupp snöggur að taka aukaspyrnuna.

Man Utd jók sóknarþungan og minnkaði Chris Smalling muninn með skallamarki eftir háa sendingu innfyrir frá Antonio Valencia.

Romelu Lukaku jafnaði þegar stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma. Boltinn datt þá fyrir hann í vítateignum og náði hann að skora framhjá nokkrum varnarmönnum heimamanna og markverðinum, sem sá boltann of seint.

Liðin skiptust á að sækja á lokamínútunum en það var Nemanja Matic sem gerði sigurmarkið með stórkostlegu langskoti.

Miðjumaðurinn leyfði boltanum að skoppa fyrir sig vel fyrir utan teig og lét vaða. Matic smellhitti knöttinn og tryggði dýrmæt stig.

Man Utd er sextán stigum frá toppliði Manchester City eftir sigurinn. Þetta var þriðji tapleikur Palace í röð og er liðið í fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner