þri 05. maí 2015 14:15
Elvar Geir Magnússon
Endurkoma Pep sérstök stund fyrir alla
Pep Guardiola mætir aftur á Nývang.
Pep Guardiola mætir aftur á Nývang.
Mynd: Getty Images
Andrés Iniesta, leikmaður Barcelona, segir að endurkoma Pep Guardiola á morgun verði sérstök stund fyrir alla.

Guardiola mætir með lærisveina sína í Bayern München á Nývang í fyrri viðureign liðanna í undan´rslitum Meistaradeildarinnar.

„Þegar ég var yngri hélt ég mest upp á tvo leikmenn. Pep var annar þeirra og Michael Laudrup hinn. Ég spilaði á unglingamóti 1999 og var fyrirliði. Það var hlutverk fyrirliða aðalliðsins að afhenda verðlaunin og á þeim tíma var það Guardiola. Það var í fyrsta sinn sem við hittumst. Við áttum eftir að eiga margar magnaðar stundir saman," segir Iniesta.

„Leikurinn á miðvikudag verður sérstakur fyrir alla vegna þeirra minninga sem eru til staðar. Þetta verður mjög áhugaverður leikur milli tveggja öflugra liða."

„Guardiola er þjálfari sem fer ofan í hvert einasta smáatriði. Hann er alltaf að hugsa um hvað má gera betur og er aðili sem hefur svo mörg svör, næstum öll þeirra eru rétt. Hann býr yfir miklum leikskilningi og þegar reynsla hans sem þjálfari hefur orðið meiri hefur hann orðið enn betri," segir Iniesta.

„Aðalatriðið þegar þú spilar svona stórleik er að reyna að njóta hans eins vel og þú getr. Það eru miklar tilfinningar í gangi því mikið er í húfi og þú ert bara skrefi frá markmiði þínu."

Guardiola vann 14 titla sem þjálfari Barcelona en hann var fyrst hjá félaginu í ellefu ár sem leikmaður og var þá einnig afar sigursæll.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner