Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 05. maí 2015 09:30
Magnús Már Einarsson
Gunnlaugur Guðjóns: Höfum áhuga á einum í viðbót
Gunnlaugur Guðjónsson (til vinstri) og Berg Valdimar Sigurjónsson.
Gunnlaugur Guðjónsson (til vinstri) og Berg Valdimar Sigurjónsson.
Mynd: Grétar Reynisson
„Spáin kemur ekki á óvart. Þetta verður mjög jöfn deild og erfitt að spá," segir Gunnlaugur Guðjónsson þjálfari Hattar en liðinu er spáð 5. sæti í 2. deildinni í sumar.

Höttur er komið í 2. deildina á nýjan leik eftir að hafa unnið 3. deildina í fyrra.

„Við förum í alla leiki til að vinna og fyrst viljum við byrja á því að tryggja okkar sæti í deildinni. Ef það tekst þá skoðum við stöðuna."

Stefnir á að fá meiri liðsstyrk
Gengi Hattar var upp og ofan á undirbúningstímabilinu enda hafa æfingar oft verið erfiðar.

„Við erum með alveg tvískiptan hóp á milli Egilsstaða og Reykjavíkur og það er klárlega ekki að hjálpa. Við gerum hins vegar það besta úr því. Við notuðum Lengjubikarinn sem okkar æfingaleiki og það hefur bara gengið þokkalega. Við höfum verið 20 á síðustu 3 æfingum og góð stemming. Vantar bara sumarið núna."

Höttur hefur fengið góðan liðsstyrk í vetur og stefnt er á að bæta ennþá meira við fyrir mót. „Við eigum eftir að fá Anton Ástvalds og Elvar Þór Ægisson inn í hópinn og svo höfum við áhuga á einum leikmanni í viðbót. Vitum hver hann er en gefum það ekki upp."

Reiknar með hörkudeild
Gunnlaugur segist búast við hörkukeppni í 2. deildinni á komandi tímabili.

„Ég þekki lítið til liðanna fyrir sunnan en þau virka sterk. Njarðvík, Afturelding, ÍR eru rótgróin og þekkja þessa baráttu sem hjálpar. Ægir og KV hafa komið upp undanfarin ár og staðið sig vel. KF, Tindastóll og Dalvík/Reynir eiga örugglega eftir að styrkja sig og verða mjög erfið heim að sækja. Þessi lið standa sig yfirleitt vel þegar sumarið byrjar."

„Ég þekki betur til liðanna hér fyrir austan og þau verða öll sterk. Ég geri ráð fyrri að Huginn verði með svipað sterkt lið og í fyrra. Eru ekki með mestu breiddina en mjög gott byrjunarlið. Leiknir og Sindri hafa unnið vel í vetur og koma vel undirbúin til leiks og gæti það hjálpað þeim í fyrri hlutanum. Það er vel staðið að öllu hjá þessum liðum og góð stemming í kringum liðin og á ég von á þeim sprækum,"
sagði Gunnlaugur.
Athugasemdir
banner
banner
banner