banner
   sun 05. júlí 2015 13:05
Arnar Geir Halldórsson
Fiji eyjar unnu 38-0 - Stærsti sigur sögunnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýtt heimsmet var sett í nótt þegar landslið Fiji eyja og Míkrónesíu mættust í Kyrrahafsmótinu sem fram fer í Papúa Nýju-Gíneu þessa dagana.

Lið Fiji vann 38-0 sigur og bætti þar með met Ástralíu frá árinu 2001 þegar Ástralía vann 31-0 sigur á landsliði Amerísku Samóaeyjanna í undankeppni HM 2002. Er þetta því stærsti sigur í opinberum landsleik sem vitað er um.

Staðan í hálfleik var 21-0 og brá þjálfari Míkrónesíu á það ráð að setja miðvallarleikmann í markið fyrir seinni hálfleikinn. Fékk hann á sig 17 mörk til viðbótar og lokatölur 38-0.

Antonio Tuivana var atkvæðamestur í liði Fiji en hann skoraði alls 10 mörk. Næsti maður, Christopher Wasasala, gerði sjö mörk.

Það sem gæti þó haldið liði Míkrónesíu frá metabókum er sú staðreynd að landið er ekki fullgildur aðili að FIFA og þá er Kyrrahafsmótið skráð sem U-23 ára mót þar sem keppnin er undankeppni fyrir Ólympíuleika.

Míkrónesía tapaði fyrsta leik mótsins 30-0 og er því markatalan eftir tvo leiki 0-68. Í síðasta leik riðilsins mætir liðið Vanúatu sem gerði 1-1 jafntefli við Fiji eyjar í fyrstu umferð.

Þess má til gamans geta að lið Fiji eyja er í 195.sæti á heimslista FIFA og er því fimmtánda lélegasta landslið heims en eins og áður sagði er Mikrónesía ekki fullgildur aðili að FIFA og er því ekki skráð á heimslista sambandsins.

Míkrónesía er eyríki í Suður-Kyrrahafi sem samanstendur af rúmlega 600 eyjum en íbúar eru rétt ríflega 100 þúsund.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner