þri 05. desember 2017 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Yorkshire hérað stofnar landslið - Walker og Vardy gjaldgengir
Ólíklegt er að tvíeykið öfluga velji landslið Yorkshire framyfir það enska.
Ólíklegt er að tvíeykið öfluga velji landslið Yorkshire framyfir það enska.
Mynd: Getty Images
Delph og Stones gætu kosið að spila fyrir Yorkshire.
Delph og Stones gætu kosið að spila fyrir Yorkshire.
Mynd: Getty Images
Það búa rúmlega fimm milljónir manna í hinu sögufræga Yorkshire héraði, Jórvíkurskíri, í norðurhluta Englands.

Í héraðinu eru nokkuð mörg knattspyrnufélög en aðeins eitt þeirra, Huddersfield Town, er í deild þeirra bestu.

Barnsley, Hull, Leeds, Middlesbrough, Sheffield United og Wednesday eru í Championship deildinni og svo eru Bradford, Doncaster og Rotherham í C-deildinni.

Í júli var knattspyrnusamband Yorkshire stofnað og má fólk frá héraðinu mæta á opna landsliðsæfingu næsta sunnudag.

Fyrsti landsleikur Yorkshire verður gegn landsliði Mön í janúar. Mön (e. Isle of Man) er eyja í Írlandshafi, á milli Bretlands og Írlands.

Yorkshire bætist þannig í hóp þeirra svæða sem eiga ekki landslið viðurkennt af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

Leikir gegn öðrum óviðurkenndum þjóðum á borð við Tíbet, Darfúr, Grænland, Kíribatí, Sansibar, Suður-Osettíu og Abkasíu gætu verið á dagskrá á næsta ári.

„Við munum ekki spila úrvalsdeildarbolta, við munum spila alvöru Yorkshire fótbolta," segir Phil Hegarty, forseti knattspyrnusambands Yorkshire.

„Við viljum ekki að fólk hendi sér í jörðina og öskri á dómarann. Ef leikmenn Yorkshire gerast sekir um slíkt verður þeim refsað."

Hegarty bætti því svo við að knattspyrnusambandið hefur áhuga á öllum þeim sem eiga nánustu ættir að rekja til héraðsins.

„Ef mamma hans Lionel Messi hefði fæðst í Barnsley þá myndum við skoða að fá hann til að spila með okkur. Því miður er það ekki raunin en sem betur fer er úr nógu að velja hérna."

Ljóst er að leikmenn Yorkshire verða langflestir áhugamenn sem leika í utandeildum. Íslendingar, sem og aðrir erlendir ríkisborgarar, sem eiga ættir að rekja til Yorkshire eru hvattir til að sækja um.

Leikmenn á borð við Kyle Walker og Jamie Vardy eru gjaldgengir í landslið héraðsins. Danny Rose, James Milner, Fabian Delph, John Stones og Aaron Lennon eru einnig frá Yorkshire. Þá eru goðsagnir enskrar knattspyrnu á borð við Brian Clough, Gordon Banks, David Seaman, Kevin Keegan, John Scales og Mick McCarthy einnig frá héraðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner