Samkvæmt heimildum Fótbolti.net er Hjörtur Hermannsson einn þeirra leikmanna sem norska úrvaldeildarliðið Viking skoðar nú sem hugsanlegan arftaka fyrir Sverri Inga Ingason sem seldur var til Lokeren í Belgíu fyrir fáeinum dögum síðan.
Hjörtur er á mála hjá PSV Eindhoven í Hollandi og spilar reglulega með varaliði félagsins, Jong PSV, í næst efstu deildinni þar í landi. Hann hefur verið viðloðandi aðalliðið og var til að mynda á varamannabekknum þegar PSV sigraði NAC Breda í vikunni.
Ekki er talið líklegt að forráðamenn PSV séu tilbúinir að selja Hjört enda stendur honum til boða nýr þriggja ára samningur en lánssamningur til liða í Skandinavíu er hugsanlega inni í myndinni.
Forráðamenn Viking eru með nokkra miðverði í sigtinu og er talið að norski miðvörðurinn Johan Lædre Björdal sem spilaði með Viking frá 2004 til 2006 sé efstur á blaði.
Hjörtur verður tvítugur á sunnudaginn en hann á að baki fjölmarga leiki með yngri landsliðum Íslands, þar á meðal níu með U-21 árs landsliðinu sem hann er ennþá gjaldgengur í. Þess má geta að hann og Sverrir Ingi spiluðu jafnmarga leiki með U-21 árs landsliðinu í síðustu undankeppni, eða sjö talsins.
Hann á að baki 42 leiki með varaliði PSV í hollensku 1. deildinni.
Athugasemdir