Newcastle blandar sér í baráttu við Man Utd og Chelsea um Delap - Man City veitir Liverpool samkeppni um Kerkez
   þri 06. maí 2014 15:15
Magnús Már Einarsson
Bjarni Jó: Landsbyggðin mannar flest stærstu lið landsins
Bjarni Jó er klár með sólgleraugun fyrir sumarið.
Bjarni Jó er klár með sólgleraugun fyrir sumarið.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Þessi spá er í samræmi við þetta allt saman. Við enduðum í 6. sæti í fyrra og mætum til leiks í ár með splunknýtt lið," segir Bjarni Jóhannsson þjálfari KA en liðinu er spáð 5. sæti í fyrstu deildinni í sumar í spá fyrirliða og þjálfara.

KA hefur látið alla sex erlendu leikmennina sem voru hjá liðinu í fyrra róa á önnur mið en heimamenn fá nú stærri hlutverk í liðinu.

,,Þetta hefur ekki gengið undanfarin ár. Hér er mjög mikið af ungum og sprækum strákum og það eru að koma upp árgangar sem eru sterkir. Við ákváðum að breyta um stíl og liðið hefur verið nokkuð sprækt í vetur. Við bíðum bara spenntir eftir byrjuninni."

Liðinu sem er spáð 10. sæti gæti farið upp
KA fékk í dag framherjann Arsenij Buinickij frá Litháen en Bjarni vonast eftir frekari liðsstyrk á næstu dögum.

,,Við erum að reyna að styrkja þetta á síðustu metrunum og vonandi tekst okkur að styrkja þetta enn frekar. Við viljum þétta þetta örlítið betur áður en við förum í átökin."

Bjarni býst við hörkutoppbaráttu í 1. deildinni líkt og á síðasta tímabili.

,,Ég held að þetta verði jafn spennandi og í fyrra og það er mjög erfitt að spá í spilin. Liðin manna sig upp frekar seint og menn vita mjög lítið um styrk hvors annars. Ef ég man rétt var Fjölni spáð 7. sæti í fyrra og þeir fóru upp. Liðinu sem er spáð 10. sæti núna gæti alveg eins farið upp eins og hvað annað."

Vill sjá umræðu um gervigras
KA mætir Víkingi Ólafsvík í fyrstu umferðinni á laugardag en sá leikur fer fram á nýjum og glæsilegum gervigrasvelli KA.

,,Gervigras er lífæð í íslenskri knattspyrnu í dag. Við byrjum á frábærum gervigrasvelli á laugardaginn, einum af betri völlum landsins. Það er frábært fyrir okkur að vera komnir með plan B," segir Bjarni sem vill að menn taki þá umræðu hvort komið sé að því að gervigrasvæða íslenska boltann.

,,Ég held að menn hljóti að fara að velta þessu fyrir sér og hætta þessu vorvæli ár eftir ár, hvar menn eigi að byrja að spila. Gervigrasvöllurinn í Laugardal hefur til dæmis öðlast nýtt líf og nú vilja allir fara þangað."

,,Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir fótboltahreyfinguna almennt að velta þessu fyrir sér. Úti á landi, hjá okkur, á Ísafirði og fleiri stöðum er veturinn oft harður og það er klárt mál að það verða að vera gervigrasvellir á hverjum einasta stað á landinu."

,,Gervigrasvellir á Íslandi er byggðarmál. Sveitarfélögin, knattspyrnusambandið og félögin sjálf þurfa að koma að þessu og gera stefnu í þessum málum. Við þurfum að viðhalda knattspyrnunni á landsbyggðinni, hún þarf að vera í toppstandi enda mannar hún flest stærstu lið landsins."

Athugasemdir
banner
banner