Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 06. maí 2015 06:00
Fótbolti.net
20 ára afmæli Everton klúbbsins á Íslandi
Frá Everton klúbbnum:
Nokkrir glaðir félagsmenn í heimsókn á Goodison Park.
Nokkrir glaðir félagsmenn í heimsókn á Goodison Park.
Mynd: Everton klúbburinn
Stuðningsmannaklúbbur Everton á Íslandi fagnar í dag merkisáfanga en hann var stofnaður þann 6. maí fyrir 20 árum á Ölveri í Glæsibæ. 16 manns sátu fyrsta aðalfund félagsins en yfir fimmtíu manns höfðu að auki sótt um inngöngu áður en stofnár félagsins, 1995, var á enda.

Mikil gróska er í félaginu um þessar mundir en fjöldi meðlima hefur aukist um 43% frá árinu 2012 og telur nú tæplega 200 félagsmenn. Klúbburinn hefur reglulega flutt fréttir af liðinu á heimasíðu sinni (everton.is) og staðið fyrir bráðskemmtilegum utanlandsferðum til Englands í samstarfi við Vita Sport, til að horfa á leiki Everton að minnsta kosti einu sinni á tímabili. Einnig hefur klúbburinn staðið fyrir ýmsum atburðum með félagsmönnum hér á landi en “heimavöllur” klúbbsins er á Ölveri í Glæsibæ þar sem stuðningsmenn hittast um það bil vikulega og horfa á beinar útsendingar af leikjum Everton.

Fyrsta árið var sérstaklega eftirminnilegt fyrir stuðningsmannaklúbbinn því aðeins örfáum dögum eftir stofnun lyfti Everton FA bikarnum í fimmta skipti með 1-0 sigri í úrslitum gegn firnarsterku liði Manchester United fyrir framan 80.000 áhorfendur á Wembley (sjá myndskeið) en mark frá Paul Rideout gerði útslagið í leiknum.

Þessi sigur veitti Everton keppnisrétt í UEFA Cup Winners Cup keppninni, sem liðið hafði unnið 10 árum áður, en þar mættu þeir meðal annars KR, undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Fyrri leikurinn fór fram í Reykjavík þann 14. september og vann Everton 2-3 (sjá myndskeið) með mörkum frá Limpar, Unsworth og Daniel Amokachi. Bibercic hjá KR svaraði með tveimur mörkum úr vítaspyrnum. Seinni leikurinn fór svo fram á Goodison Park þann 28. september 1995 og vann Everton þann leik 3-1 -- þrátt fyrir þrumuræðu Guðjóns Þórðarssonar, sem sjá má í bráðskemmtilegu myndskeiði! Ræða Guðjóns fyrir leik kveikti greinilega í leikmönnum KR því þeir voru yfir 1-0 í hálfleik en Stuart, Grant og Rideout svöruðu fyrir Everton sem unnu 3-1 og því samanlagt 6-3.

Það er einnig gaman að segja frá því að tveir Íslendingar hafa verið viðloðnir Everton á undanförnum árum en Bjarni Viðarsson var leikmaður Everton frá 2004-2008 (áður en hann fór til Twente) og Hörður Björgvin Magnússon var þar einnig á reynslusamningi árið 2009.

Everton klúbburinn á Íslandi kemur til með að halda upp á 20 ára afmæli sitt í Guðmundarlundi í Kópavogi þann 16. maí næstkomandi og býður klúbburinn öllum þeim sem styðja Everton að málum -- ásamt fjölskyldum til að fagna með sér, en nánari upplýsingar um grillveisluna er að finna hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner