fös 06. maí 2016 11:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Guardian 
Pistill - Ævintýri Leicester: Saga af ótrúlegu tímabili
Claudio Ranieri er í guðatölu í Leicester.
Claudio Ranieri er í guðatölu í Leicester.
Mynd: Getty Images
Leikmenn eftir að titillinn var í höfn.
Leikmenn eftir að titillinn var í höfn.
Mynd: Getty Images
Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi Leicester.
Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi Leicester.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Leicester kampakátur.
Stuðningsmenn Leicester kampakátur.
Mynd: Getty Images
Stytta af Ríkharði þriðja Englandskonungi með fána Leicester.
Stytta af Ríkharði þriðja Englandskonungi með fána Leicester.
Mynd: Getty Images
N'Golo Kante hefur verið magnaður.
N'Golo Kante hefur verið magnaður.
Mynd: Getty Images
Ranieri hefur heillað alla.
Ranieri hefur heillað alla.
Mynd: Getty Images
Jamie Vardy og tvífari hans.
Jamie Vardy og tvífari hans.
Mynd: Getty Images
Riyad Mahrez hefur verið rosalegur.
Riyad Mahrez hefur verið rosalegur.
Mynd: Getty Images
Kasper Schmeichel, markvörður Leicester.
Kasper Schmeichel, markvörður Leicester.
Mynd: Getty Images
Kóngurinn.
Kóngurinn.
Mynd: Getty Images
Leicester hefur tryggt sér enska meistaratitilinn. Hvað fékk Leicester til að ráða Claudio Ranieri? Hver er lykillinn að árangri liðsins? Stuart James hjá Guardian fór í rannsóknarvinnu og upplýsir í pistli hvernig Refirnir hafa komið heimsbyggðinni í opna skjöldu.

Hér að neðan má sjá íslenska þýðingu á þessum pistli.



Í júlí í fyrra var Claudio Ranieri í fríi á Ítalíu þegar hann fékk símtal frá umboðsmanni sínum Steve Kutner. Þetta símtal átti eftir að breyta andliti enska boltans á þá vegu sem enginn hefði getað ímyndað sér. Kutner hafði verið að reyna að sannfæra Jon Rudkin, yfirmann fótboltamála hjá Leicester, að það væri þess verði að skoða það að ráða Ranieri sem knattspyrnustjóra og loksins voru hjólin farin að snúast.

Ranieri var án starfs á þessum tímapunkti en áhugasamur um að snúa aftur til starfa og efst á óskalistanum var England þar sem hann átti kærar minningar frá tíma sínum hjá Chelsea. Hann átti enn íbúð í London eftir veru sína á Stamford Bridge meira en áratug á undan. Rætt hafði verið við nokkur lið í Championship-deildinni án árangurs þegar Nigel Pearson var rekinn frá Leicester og tækifærisgluggi opnaðist fyrir Kutner og Ranieri.

Vissi að Ranieri myndi heilla
Kutner fann fyrir efa um Ranieri hjá Leicester en neitaði að gefa þetta upp á bátinn. Hann sendi þeim ferilskrá þessa 64 ára Ítala ásamt afrekaskrá - Konungsbikarinn og Ofurbikarinn með Valencia, ítalskur meistari með Fiorentina og silfurverðlaun í ensku úrvalsdeildinni, frönsku deildinni og tvívegis í ítölsku A-deildinni.

„Ég vildi fá þá til að hitta Claudio, vegna þess að ég var viss um að ef það myndi gerast þá myndu þeir heillast af honum," segir Kutner.

Leicester ákvað á endanum að samþykkja þá hugmynd að fá hann í starfsviðtal. Ranieri stökk um borð í flugvél til London og ásamt Kutner hitti hann Rudkin, Susan Whelan framkvæmdastjóra, Andrew Neville framkvæmdastjóra fótboltamála og Aiyawatt Srivaddhanaprabha varaformann.

Ranieri var Ranieri; heillandi, gríðarlega ástríðufullur og gáfaður. Það var þetta sem heillaði Srivaddhanaprabha. Rætt var um Francesco Totti og Gabriel Batistuta þegar Ranieri fór yfir þá sóknarmenn sem hann hafði unnið með. Áhugasemi Ítalans heillaði stjórnarmenn Leicester.

Það fékkst staðfest nokkrum dögum síðar að fundurinn hefði heppnast vel þegar Ranieri og Kutner var boðið að koma til frekari viðræðna. Að þessu sinni var Vichai Srivaddhanaprabha, faðir Aiyawatt og eigandi Leicester, einnig viðstaddur. Því lengur sem stjórn Leicester ræddi við Ranieri því meira uppgötvaði hún að það væri rökrétt að ráða hann.

Þetta þýðir samt ekki að nokkur sá sem átti þátt í þessari ákvörðun hafi í andartak haldið að einn daginn myndi Ranieri labba um King Power leikvanginn eftir síðasta heimaleik tímabilsins með Englandsmeistarapening um hálsinn. Það er saga sem er jafn falleg og hún er fáránleg.

Ranieri? Í alvörunni?
Veðbankar töldu nánast óhugsandi að Leicester gæti orðið meistari. Þegar Ranieri ákvað að skreyta skrifstofuna sína með einstaklingsmyndum af öðrum stjórum ensku deildarinnar (hann vildi láta þeim líða velkomnir eftir leik) voru margir sem veltu því fyrir sér hversu langt yrði þangað til annar maður færi í stólinn og bæði um að þessar svart-hvítu myndir yrðu settar ofan í kassa og ættu aldrei að sjást aftur.

Þannig var horft á ráðningu Ranieri og það er ástæðulaust að halda öðru fram. Kvöldið sem hann var kynntur á King Power leikvanginum skrifaði Gary Lineker setningu á Twitter sem margir höfðu hugsað: „Claudio Ranieri? Í alvörunni?"

Whelan og Rudkin sátu með nýja stjóranum og virtist það vera stuðningsyfirlýsing frekar en allt annað. Það segir sitt að Whelan bað stuðningsmenn um að treysta dómgreind stjórnarinnar þegar það kom að þeirri ákvörðun að reka Pearson og ráða Ranieri.

Níu mánuðum síðar, skömmu áður en Leicester innsiglaði Englandsmeistaratitilinn, var birt fallegt myndband þar sem Ranieri horfði á skilaboð frá stuðningsmönnum Leicester um alla borg. Fyrst var Vicky í grænmetis- og ávaxtasölunni á markaðnum og þar á eftir kom svo lestarstarfsmaður sem talaði fyrir hönd allra starfsmanna lestarstöðvarinnar og þakkaði fyrir allt sem hann hafði gert fyrir fótboltafélagið þeirra. „Guð" og „goðsögn" voru meðal þeirra orða sem notuð voru til að lýsa Ranieri. Er það ekki skiljanlegt miðað við það sem gerst hefur á þessu tímabili?

Hvernig í ósköpunum?
Árangur Leicester undir stjórn Ranieri fer í sögubækurnar sem eitt mesta afrek í íþróttum. Ef við hugsum út í stundina næsta laugardag, eftir heimaleikinn gegn Everton, þegar Wes Morgan stígur fram og tekur upp 25 kílóa enska meistarabikarinn er augljósa spurningin: Hvernig í ósköpunum tókst þeim þetta?

Sannleikurinn er sá að jafnvel fólk innan félagsins hristir hausinn og trúir þessu ekki, eins og þeir búist við því að nudda augun einn morguninn og uppgötvar að þetta hafi allt verið draumur. Enginn hjá Leicester getur sagt að hann hafi séð að þetta gæti gerst. Fólk getur þó komið með skýringar af hverju allt hefur gengið upp, talað um ótrúlega samblöndu af liðsanda og hæfileikum í hópi leikmanna sem hefur sjaldgæfa eiginleika. Hungrið er ofar í huga þeirra en peningar.

Augljós upphafspunktur ævintýrisins er í lok síðasta tímabils, áður en Ranieri tók við og þegar Pearson og hans menn áttu björgunina ótrúlegu, unnu sjö af síðustu níu leikjum sínum og klifu af botninum og upp í 14. sæti. Ranieri talaði um þetta sem „kraftaverk" daginn sem hann var kynntur fyrir fjölmiðlum. Þessi umsnúningur gaf vísbendingar um hvað liðið gæti gert.

Allir elska Kante
Robert Huth sem var á láni frá Stoke kom alfarið og Christian Fuchs og Shinji Okazaki komu frá Schalke og Mainz. Steve Walsh, aðstoðarstjóri og yfirmaður innkaupamála, var upptekinn við að reyna að fá annan leikmann sem fáir þekktu en átti eftir að verða ein bestu kaup ensku úrvalsdeildarinnar.

N’Golo Kante heitir umræddur leikmaður og Ranieri vissi lítið sem ekkert um hann, eins og hann viðurkenndi síðar. Ranieri var alls ekki einn um það. Margir aðrir stjórar ensku úrvalsdeildarinnar hafa velt því fyrir sér hvers vegna þeir komu ekki auga á þennan leikmann. Walsh og hans starfslið hafði unnið heimavinnu sína. David Mills, yfirnjósnari Leicester, hafði horft á Kante spila fyrir Caen og myndbandsupptökur og tölfræði voru notuð til að skoða hæfileika miðjumannsins.

Það átti samt eftir að sannfæra Ranieri um líkamlegt ástand leikmannsins. Walsh var sífellt að minnast á Kante og á endanum sannfærði hann Ranieri. Leicester lagði fram 5,6 milljónir punda og söguna þekkja allir. Gríðarleg gæði innan vallar og rólyndis maður utan hans. Kante keyrir smábíl og lifir einföldu lífi sem snýst um tæklingar og að brosa; stundum á sama tíma. Hann hefur verið magnaður og allir hjá Leicester elska hann.

Ranieri vann með Walsh hjá Stamford Bridge þar sem hann var njósnari í 16 ár. Ranieri vissi í hve miklum metum þessi fyrrum kennari, sem hefur verið miðpunkturinn í árangri Leicester með því að finna réttu leikmennina, var hjá Rudkin og eigendum félagsins.

Starfsliðinu var ekki sópað út
Það var lykilatriði að Ranieri var tilbúinn að vinna með starfsliðinu sem var fyrir hjá félaginu, þar á meðal Craig Shakespeare sem er einnig aðstoðarstjóri eins og Walsh. Hann á náið samband við leikmenn og er með þeim á æfingasvæðinu alla daga. Í stað þess að sópa öllum út, sem hefði getað haft þau áhrif að hann fengi ekki starfið, ákvað Ranieri að taka aðeins þrjá menn með sér.

Paolo Benetti, sem hefur unnið með Ranieri síðan 2007, var gerður að þriðja aðstoðarstjóranum og er í því hlutverki að rökræða við knattspyrnustjórann um hans hugmyndir. Andrea Azzalin var ráðinn til að sjá um líkamlegt ástand leikmanna og svo var ráðinn markmannsþjálfari sem fljótlega hvarf á braut. Mike Stowell sér um markmannsþjálfunina en allir sem þjálfa Kasper Schmeichel þurfa að hafa breitt bak því faðir hans Peter Schmeichel er reglulegur gestur á æfingasvæðinu og fylgist með öllu.

Árangur Leicester undir stjórn Pearson var hindrun fyrir Ranieri en einnig hjálp. Liðið hafði meðbyrinn frá síðasta tímabili og leikmenn töldu að það þyrfti ekki miklu að breyta. Pearson var feykilega vinsæll stjóri í klefanum og margir leikmenn voru honum tryggir. Starfshættir hans voru vinsælir, meðal annars sú staðreynd að hann gefur leikmönnum rödd og vill að menn segi sínar skoðanir óhindrað.

Ranieri var meðvitaður um að hann myndi ekki fá alla hjá félaginu með sér strax frá byrjun. Hann þurfti að aðlagast því umhverfi sem hann kom inn í og halda í margar hefðir. Þegar kom að leikfræðinni hinsvegar hafði Ranieri fljótlega áhrif. Á undirbúningstímabilinu ákvað hann að liðið myndi hætta að spila með þrjá miðverði - leikkerfi sem virkaði vel undir stjórn Pearson í lok síðasta tímabils. Á þessum tíma þótti þetta stór ákvörðun en Ranieri hitti beint í mark og það sama á við um liðsval hans og skiptingar.

Snemma lagði Ranieri traust á Danny Drinkwater sem komst ekki í liðið í lok síðasta tímabils en klárar þetta tímabil með þá von að hann sé á leiðinni á EM með Englandi. Þá hefur hann óhikað haldið Gökhan Inler utan liðsins, svissneska landsliðsfyrirliðanum sem var keyptur til að fylla skarð Esteban Cambiasso. Ranieri vildi kaupa Inler sem var í miklum metum hjá honum en var ekki einu sinni á bekknum gegn Swansea á sunnudaginn. Ranieri setti Marc Albrighton á bekkinn og staðfesting á því að hann virðist ekki geta gert neitt rangt sást í því að Albrighton kom af bekknum og skoraði fjórða mark Leicester.

Dillí-ding, dillí-dong
Eitt sem aldrei mun breytast varðandi Ranieri er þessi hlýlegi og smitandi persónuleiki. Hann hefur komið með ljós og húmor til Leicester. Hann hefur átt margar fyndnar setningar, sumar þeirra hefur hann komið með viljandi en aðrar óvart. Sama hvort það er þá hlær Ranieri af sjálfum sér.

Frasinn „Dillí-ding, dillí-dong" er frægur en hann notar Ranieri til að láta leikmenn vita að þeir eigi að fylgjast vel með, bæði á æfingavellinum eða á fundi. Þessi frasi er á heimili starfsmanna og leikmanna Ranieri. Eftir einn fundinn, fyrir útileik gegn Liverpool á öðrum degi jóla, gaf hann öllum bjöllur með nafni sínu gröfnu í.

Ranieri er enginn kjáni. Á þessum tímapunkti var Leicester að njóta útsýnisins frá toppi töflunnar og Ranieri á fullu að vinna í væntingastjórnun gegnum fjölmiðla. Fréttamannafundir hófust á því að hann tók í hendur allra í herberginu og andrúmsloftið var létt. Í eitt skipti minntist hann á Bandaríkjaforseta þegar hann var spurður út í titilinn. „Ég væri til í að segja: Já við getum! En ég er ekki Obama," sagði Ranieri og brosti.

Bak við tjöldin var metnaðurinn að aukast. Í litríkum búningsklefanum, þar sem rödd Jamie Vardy setur viðmið og húmor Huth er allsráðandi, var liðsandinn og ákveðnin ásamt hæfileikunum að skína í gegn. Ranieri horfði á vonbrigðin meðal leikmanna eftir 1-1 jafntefli gegn Manchester United í nóvember og sá hungrið og trúna sem var í hópnum.

Vardy kom Leicester yfir í leiknum með sögulegu marki þegar hann varð fyrsti leikmaðurinn til að skora í ellefu úrvalsdeildarleikjum í röð. Enski sóknarmaðurinn hefur verið að raða inn mörkum og kom til greina sem leikmaður tímabilsins. Það var liðsfélagi hans, Riyad Mahrez, sem tók þann titil.

Mahrez kom 2014 frá Le Havre fyrir 450 þúsund pund og það er hlægilegt að hugsa til þess að ekki er langt síðan stjórnarformaður Marseille sagði það bull að félagið vildi kaupa leikmanninn. Walsh var í njósnaleiðangri til að horfa á Ryan Mendes þegar hann hreifst af vængmanninum Mahrez.

Mahrez hefur heillað fótboltaáhugamenn á tímabilinu og ef það var einhver frammistaða sem innsiglaði titil hans sem leikmaður ársins var það gegn Manchester City í febrúar. Leicester vann 3-1 sigur og Mahrez sýndi sínar bestu hliðar.

Sendir í frí og áttu að hætta að hugsa um fótbolta
Vonbrigðin voru mikil þegar Leicester tapaði fyrir Arsenal með tíu menn á vellinum í meira en hálftíma eftir rautt spjald Danny Simpson. Leicester fékk á sig mark á 95. mínútu og tapaði 2-1. Þessu var erfitt að kyngja. Forysta liðsins á toppnum var skyndilega bara tvö stig og allir, líka innan félagsins, veltu því fyrir sér hvernig leikmenn myndu bregðast við. Ekki bara vegna tapsins heldur hvernig liðið tapaði.

Ranieri sýndi þá snilldar útspil þegar hann nýtti sér það að liðið féll snemma úr FA-bikarnum og gaf leikmönnum vikufrí frá æfingum til að hugsa um eitthvað annað en fótbolta. Þegar leikmenn snéru aftur á völlinn þögnuðu efasemdarraddir. Leicester vann sex og gerði eitt jafntefli í næstu sjö leikjum; tók 19 stig af 21 mögulegu á meðan Arsenal fékk 9 stig.

Stöðugleikinn í liðsvalinu
Leicester á þessum tíma var eins og við þekkjum það. Schmeichel í markinu; Simpson, Morgan, Huth og Fuchs í vörninni; Mahrez, Drinkwater, Kante og Albrighton á miðjunni og Okazaki rétt fyrir aftan Vardy sem var í fremstu víglínu. Tvær þéttar fjögurra manna línur sem gáfu andstæðingum lítið pláss fyrir samspil og djúpur vinnusamur framherji sem aldrei hættir að hlaupa. Í fremstu víglínu rándýr með hraða til að klára skyndisóknirnar.

Sjö af þessum ellefu hafa byrjað 33 af 36 deildarleikjum á tímabilinu. Af hinum hefur Okazaki byrjað fæsta leiki, 27. Ranieri þekkir sitt lið og stöðugleikinn er mikill. Reynslan er líka til staðar. Schmeichel og varnarlínan ásamt Okazaki og Vardy eru allir 29 ára eða eldri. Þetta eru menn, ekki strákar, og það hefur sýnt sig í því hvernig þeir hafa haldið haus í gegnum toppbaráttuna.

Þeir hafa verið mjög heppnir varðandi meiðsli og því auðvelt fyrir Ranieri að velja alltaf sama liðið. En þetta er ekki bara heppni því mikil áhersla er lögð á það hjá félaginu að fylgjast með líkamlegu ástandi leikmanna. Félagið hefur fjárfest í kæliklefa sem á að flýta fyrir bata leikmanna. Önnur tæknileg atriði eru í hæsta gæðaflokki í þessum málum.

Á endanum er það hugarfarið sem skiptir mestu máli. Ranieri vill hafa leikmenn á æfingum og læknateymið á að lágmarka hættuna á meiðslum. Stundum þarf að fara milliveg, hvort sem það snýr að því að stíga á æfingahjól við hliðarlínunna á taktískum æfingum. Það er eitthvað sem Ranieri hefur nýtt sér svo umræddur leikmaður viti hlutverk sitt á leikdegi án þess að meiðsli hans hafi aukist. Allir sáttir.

Þetta eru ekki geimvísindi eins og við sem höfum horft á Leicester á þessu tímabili vitum. Þetta þurfa heldur ekki vera geimvísindi. Í leik þar sem sífellt er verið að reyna að flækja hlutina og verið að horfa á tölfræðina sýnir að Leicester er í botn þremur yfir að vera með boltann og aðeins West Bromwich Albion er með verra hlutfall heppnaðra sendinga. En á einu töflunni sem skiptir máli er Leicester á toppnum. Við ættum öll að njóta þeirrar sjónar.
Athugasemdir
banner
banner
banner