Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 06. maí 2016 14:15
Magnús Már Einarsson
Eiður Ben: Íslenski markaðurinn sá steiktasti í heimi
Eiður Benedikt Eiríksson.
Eiður Benedikt Eiríksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Spáin kemur aðeins á óvart, ég bjóst við að okkur yrði spáð 6. sætinu þar sem Fylkisliðið endaði í fyrra. Ég myndi líklega spá Fylki miðjumoði ef ég væri utanaðkomandi vegna þess aðbæði karla og kvennaliðin sem og yngri flokkar félagsins hafa fest sig í sessi sem einn allra mesti meðalklúbbur landsins og því þarf að breyta," segir Eiður Benedikt Eiríksson þjálfari Fylkis í Pepsi-deild kvenna en liðinu er spáð sjöunda sæti í deildinni í sumar.

„Sjöunda sætið er ekki til í minni orðabók enda stefnum við mun ofar, þetta er auðvitað bara spá og tel ég að það sé nokkuð erfitt að spá í liðin vegna þess að leikmenn koma oft seint inn og liðin eru að prófa sig áfram. Það er einnig erfitt að lesa í undirbúningstímabil og þá sérstaklega kvennamegin þar sem skipt er í A deild og B deild Lengjubikarsins."

4. sætið algjört lágmark
Eiður segir að Fylkir stefni á að bæta sinn besta árangur í sögunni í sumar.

„Ég hef alltaf farið á ball til þess að fara heim með sætustu stelpunni, síðan er misjafnt hvernig spilast úr kvöldinu. Það er bara sama með þetta, við förum í mótið til þess að vinna bæði deild og bikar. Að mínu mati stjórnum við alveg ferðinni, ef 1+2+1, markvörður, hafsentar og djúpur miðju, taka ábyrgð og spila vel, þá getum við farið alla leið. Besti árangur Fylkis frá upphafi er 5. sæti og er því 4. sætið algjört lágmark að mínu mati. Liðið er gott og hefur alla burði til þess að vinna öll lið deildarinnar og taka þann stóra í haust."

Fengu kvenkyns John Terry frá Fram
Eiður tók við Fylki af Jörundi Áka Sveinssyni í fyrrhaust og breytingar hafa orðið á leikmannahópnum í vetur.

„Já örlítið, eðlilega þar sem það urðu þjálfaraskipti í haust. Breytingarnar eru þó ekki stórvægilegar en við höldum einum útlending frá því í fyrra og fáum tvo aðra. Við versluðum svo ákaflega vel á íslenska markaðnum í vetur en sá markaður líklega einn sá steiktasti í heiminum. Ég tel þó að við höfum gert tvö bestu kaupin með því að fá Kristínu Ernu frá ÍBV og Huldu Sig frá Haukum, þar að auki fengum við kvenkyns John Terry (Margréti Sveins) frá Fram en ég hef ekki ennþá séð hana tapa skallabolta."

„Audrey Baldwin er markmaður sem kemur frá Bandaríkjunum, hún hefur komið skemmtilega inní þetta hjá okkur og gefur Evu góða samkeppni. Núna nýverið fengum við hina ungu og efnilegu Kristínu Dís á láni frá Breiðablik en ég er ákaflega ánægður með þau félagaskipti og virkilega spenntur að sjá Kristínu í orange. Ég get því miður lítið tjáð mig um Man Ting Lin annað en að hún er landsliðsmaður frá Tævan og leikur í stöðu miðvarðar, hún kemur til landsins með AO sem lék einnig með Fylki í fyrra. Þeir leikmenn sem eru farnir eru mestmegnis útlendingar en svo lagði Ólína Viðarsdóttir skónna á hilluna."


Breyttu leikstíl liðsins
Fylkir fór í úrslit Reykjavíkurmótsins í vetur og Eiður er ánægður með undirbúningstímabilið.

„Ég hef verið mjög ánægður með leikmennina á undirbúningstímabilinu. Mitt helsta markmið þegar ég tók við liðinu var að breyta æfingakúltúrnum og tókst það mjög fljótt. Liðið hefur æft af miklum krafti í allan vetur og hefur verið lítið um frí, nema þá helgarfrí hér og þar. Það hefur tekið mestan tíma að móta leikstíl liðsins sem breyttist mikið þegar Jasmín sleit krossband en við hugsuðum hana í stórt hlutverk í sóknarleik liðsins. Eftir fjórar svefnlausar nætur breyttum við Haffi leikstíl liðsins og teljum við að sú breyting muni verða til þess að við munum ná því besta út úr hverjum og einum leikmanni."

„Fylkisliðið hefur undanfarin ár spilaðskipulagðan varnarleik og verður engin breyting þar á þetta árið og tel ég það gulltryggt að Fylkisliðið muni koma inní mótið og spila mjög góðan fótbolta. Undirbúningstímabilið hefði aldrei gengið svona vel ef ekki væri fyrir allt þetta frábæra fólk sem starfar í kringum liðið."

„Hvað varðar vormótin þá hef ég hef heilt yfir verið ánægður með spilamennsku liðsins á undirbúningstímabilinu. Við höfum átt einn afleitan leik en það var á móti ÍBV í Lengjubikarnum, þrátt fyrir að eiga slæman dag þá vorum við með boltann allan tímann í leiknum en það dugir ekki alltaf til enda snýst leikurinn um að koma tuðrunni í mark andstæðingsins."

„Við höfum spilað góða leiki en hefur hinsvegar skort kjark til þess að gera út um leikina eins og á móti Þór/KA,Stjörnunni,Breiðablik & Val, í staðinn fyrir að gefa andstæðingnum mörk, að taka mómentin og rúlla yfir liðin, þarna kemur einmitt að þessari meðalhugsun sem við þurfum að breyta og vera meðvituð um þessa hluti, taka leikina yfir og standa þar af leiðandi uppi sem sigurvegarar."


Vill að Aron Jó setji pening í verkefnið
Fylkir fékk tvær landsliðskonur frá Tævan í vikunni sem og Kristínu frá Breiðabliki en möguleiki er á frekari liðsstyrk.

„Ég væri til í að fá einn leikmann í viðbót, ég er búinn að ýja að því við Aron Jóhannson að setja smá pening í verkefnið sem mun skila sér til lengri tíma. Það er klárt að ef það koma ekki einn eða tveir leikmenn fyrir mót, að þá munum við reyna að fá einn eða tvo í glugganum. Það er mikilvægt fyrir okkur þjálfarana að þegar nýjir leikmenn eru að koma inn að þeir passi inní hópinn og inní klefastemmninguna hjá liðinu. Verði það hinsvegar svoleiðis að við finnum ekki þessa kandídata sem við erum að leita að þá eigum við alltaf inni þær Rakel Leifs og Anítu Björk sem eru á láni, einnig eigum við öflugar stelpur í 2, 3 og 4.flokki félagsins og vonandi grípur einhver þeirra tækifærið í sumar því þau verða klárlega til staðar," sagði Eiður að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner