Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 06. júlí 2015 14:52
Elvar Geir Magnússon
Hemmi Hreiðars sagður vera að taka við Fylki
Hermann Hreiðarsson og Ásgeir Ásgeirsson.
Hermann Hreiðarsson og Ásgeir Ásgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Háværar sögusagnir eru í gangi um að Fylkismenn hafi ákveðið að gera þjálfaraskipti og Ásmundur Arnarsson hafi verið rekinn. Hermann Hreiðarsson ku vera að taka við.

Fótbolti.net reyndi að ná í Ásgeir Ásgeirsson formann knattspyrnudeildar, Ólaf Geir Magnússon í meistaraflokksráði, Val Inga Johansen stjórnarmann, Ásmund og Hermann en enginn þeirra svaraði.

Fylkismenn steinlágu 4-0 gegn ÍBV í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins um helgina.

Árbæingar eru í 7. sæti í Pepsi-deildinni með 13 stig eftir 10 leiki en fyrir tímabilið var gefið út að stefnan væri sett á Evrópusæti.

Hermann þarf ekki að kynna fyrir íslenskum fótboltaáhugamönnum. Hann á fjölmarga landsleiki að baki og þá lék hann lengi í atvinnumennsku, meðal annars með Portsmouth þar sem hann varð enskur bikarmeistari.

Árið 2013 stýrði Hermann liði ÍBV til sjötta sætis í Pepsi-deildinni en hætti sem þjálfari liðsins eftir sumarið.

Hann hefur verið tíður gestur á Fylkissvæðinu enda hefur hann verið að starfa í meistaraflokksráði kvenna hjá félaginu. Eiginkona hans, Ragna Lóa Stefánsdóttir, var þjálfari kvennaliðs Fylkis í fyrra.

Ásmundur hefur þjálfað Fylki frá tímabilinu 2012 en þar á undan hélt hann um stjórnartaumana hjá Fjölni með góðum árangri.
Athugasemdir
banner
banner
banner