Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 06. júlí 2015 17:02
Elvar Geir Magnússon
Hemmi Hreiðars tekur við - Reynir aðstoðar (Staðfest)
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hermann Hreiðarsson hefur verið ráðinn þjálfari Fylkis en samningur hans er út tímabilið til að byrja með. Reynir Leósson verður áfram aðstoðarþjálfari Árbæjarliðsins.

Ásmundur Arnarsson var látinn fara en Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, segir að þjálfarateymið í kringum Hermann verði það sama og var hjá Ásmundi.

Gengi Fylkis hefur ekki verið eftir væntingum en fyrir sumarið var stefnan sett á Evrópusæti. Liðið situr í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar.

Á laugardaginn tapaði Fylkir illa fyrir ÍBV 4-0 í bikarnum.

„Sá leikur var ákveðinn vendipunktur. Okkur fannst þörf á breytingum og nýju blóði," segir Ásgeir en Árbæingar stefna á að styrkja leikmannahóp sinn í glugganum.

„Ása verður sárt saknað. Hann er öðlingsdrengur og mjög gott að vinna með honum. Svona er bara fótboltinn."

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net sauð upp úr í klefa Fylkis eftir leikinn gegn ÍBV. Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði og Ólafur Geir Magnússon í meistaraflokksráði áttu þar hörð orðaskipti. Formaðurinn segir það ekki hafa verið neitt alvarlegt.

„Það var ekkert alvarlegt, menn eru bara með „passion" fyrir hlutunum," segir Ásgeir.

Hermann þarf ekki að kynna fyrir íslenskum fótboltaáhugamönnum. Hann á fjölmarga landsleiki að baki og þá lék hann lengi í atvinnumennsku, meðal annars með Portsmouth þar sem hann varð enskur bikarmeistari.

Árið 2013 stýrði Hermann liði ÍBV til sjötta sætis í Pepsi-deildinni en hætti sem þjálfari liðsins eftir sumarið.

Hann hefur verið tíður gestur á Fylkissvæðinu enda hefur hann verið að starfa í meistaraflokksráði kvenna hjá félaginu. Eiginkona hans, Ragna Lóa Stefánsdóttir, var þjálfari kvennaliðs Fylkis í fyrra.
Athugasemdir
banner
banner
banner