Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 06. október 2015 15:49
Magnús Már Einarsson
38% atvinnumanna hafa glímt við andleg veikindi
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Algengara er að atvinnumenn í fótbolta glími við andleg veikindi eins og þunglyndi og kvíða heldur en fólk almennt.

Samkvæmt könnun Fifpro, samtaka atvinnumanna í fótbolta, hafa 38% af atvinnumönnum í heiminum glímt við andleg veikindi á einhverjum tímapunkti á ferlinum.

Þá hafa 35% af fyrrum atvinnumönnum glímt við andleg veikindi. Þeir leikmenn sem meiðst þrisvar eða oftar alvarlega á ferlinum eru fjórum sinnum líklegri til að glíma við andleg veikindi heldur en aðrir fótboltamenn.

826 atvinnumenn og fyrrverandi atvinnumenn tóku þátt í könnuninni hjá Fifpro og hún leiddi þetta í ljós.

Á bilinu 13-17% almennings glímir við andleg veikindi og því er talan mun hærri hjá atvinnumönnum í fótbolta.

Margrét Lára Viðarsdóttir framkvæmdi könnun hjá íslenskum atvinnumönnum í boltaíþróttum en 25% þeirra höfðu glímt við andleg veikindi á einhverjum tímapunkti og það er talsverð hærri prósenta en hjá almenningi.

Mikil vakning hefur orðið í umræðu um andleg veikindi íþróttamanna á Íslandi en á dögunum var haldið málþing í HR um málefnið. Þá hafa nokkrir leikmenn greint frá baráttu sinni við andleg veikindi undanfarna mánuði, nú síðast Alexander Kostic sem sagði frá baráttu sinni við kvíða í viðtali á Fótbolta.net.

Sjá einnig:
„Atvinnumenn í boltaíþróttum eru kvíðnari en jafnaldrar" (Viðtal við Hafrúnu Kristjánsdóttur)
Athugasemdir
banner