Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 06. október 2015 20:45
Elvar Geir Magnússon
Agamál
Arnar Grétars ósáttur við bannið: Munum svara þessu
Arnar Grétarsson ræðir við Þórodd Hjaltalín dómara.
Arnar Grétarsson ræðir við Þórodd Hjaltalín dómara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar við hliðarlínuna.
Arnar við hliðarlínuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við erum að skoða hvernig við ætlum að svara þessu, það er pottþétt að við munum svara þessu. Þarna er ekkert samræmi og þetta kemur mjög á óvart," segir Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, sem í dag var dæmdur í tveggja leikja bann af aganefnd KSÍ.

Arnar fékk brottvísun þegar Breiðablik vann Fjölni í lokaumferð Pepsi-deildarinnar. Þetta var fyrsta rauða spjald hans í sumar og fer hann þá sjálfkrafa í eins leiks bann. Eftir að hafa skoðað skýrslu Valdimars Pálssonar, dómara leiksins, ákvað aganefndin óvænt að bæta við aukaleik án þess að það hafi verið útskýrt á heimasíðu KSÍ.

Arnar verður því í banni í fyrstu tveimur umferðum næsta tímabils.

„Þetta er alls ekki rökrétt. Þurfa menn ekki að vera samkvæmir sjálfum sér? Annar þjálfari fékk eins leiks bann við fyrstu brottvísun og ég efast um að ég hafi hegðað mér á þann máta sem viðkomandi gerði. Ég átta mig ekki á því hvernig aganefndin getur farið eftir einhverjum orðum í þessari skýrslu og látið mig fá tvo leiki."

Samræmið er ekkert
Arnar fékk beint rautt fyrir ummæli við dómarana eftir að Jonathan Glenn, sóknarmaður Blika, fékk rauða spjaldið fyrir að slá til Jonatan Neftali, spænsks varnarmanns Fjölnis.

„Maður fór yfir strikið en þetta er leikur tilfinninga. Ég hef hegðað mér tiltölulega vel í sumar en þarna gerist ákveðinn hlutur. Ólafur Pétursson (markmannsþjálfari) hafði kvartað yfir hegðun Spánverjans í garð Jonathan Glenn og Atla Sigurjónssonar. Hann var búinn að sparka til manna og kýla. Hann hefði getað verið búinn að fá rautt en svo gerist þetta atvik," segir Arnar en Glenn fékk einnig aukaleik í bann frá aganefndinni. Glenn sagði við Vísi eftir leikinn að Neftali hefði klipið í eyrað á sér þegar hann lá á vellinum.

„Jonathan Glenn átti að fá rautt en hann átti aldrei að fá tvo leiki. Hann var ekki með hnefa heldur slær til Spánverjans því hann steig yfir hann og kleip í eyrað á honum. Þetta á bara að vera eins leiks bann. En þegar þetta atvik gerðist missti ég mig því við höfðum látið dómarana vita að þessi gaur var búinn að vera stanslaust í þessu dóti. Vertu samkvæmur sjálfum sér og gefðu honum líka rautt."

„Ég sagði einhverja hluti sem ég átti ekki að segja, svo snéri ég mér bara við og þá ákveður Guðmundur Ársæll fjórði dómari að gefa mér rautt. Í ljósi aðstæðna finnst mér að hann hefði getað bitið í tunguna á sér og gefið smá slaka. Að þetta skuli vera tveir leikir er eitthvað sem ég skil ekki og þetta finnst mér léleg vinnubrögð án þess að ég ætli að réttlæta það sem ég gerði. Samræmið er bara ekkert," segir Arnar sem telur að dómarar þurfi að hafa breiðara bak en þetta.

„Dómararnir þurfa að geta bitið í tunguna á sér. Það væri búið að henda öllum út af í enska boltanum miðað við þetta."

Arnar segir að Breiðablik muni láta í sér heyra vegna þessarar niðurstöðu aganefndarinnar og muni reyna að létta refsingunni.
Athugasemdir
banner
banner