þri 06. október 2015 21:36
Alexander Freyr Tamimi
Sergio Ramos skýtur á Benítez: Hann gerði líka mistök
Sergio Ramos gerir mistök eins og aðrir.
Sergio Ramos gerir mistök eins og aðrir.
Mynd: Getty Images
Sergio Ramos, varnarmaður Real Madrid, hefur gefið sterklega í skyn að skiptingar þjálfarans Rafa Benítez í 1-1 jafnteflinu gegn nágrönnunum í Atletico hafi verið mistök.

Benítez tók þá Isco og Karim Benzema af velli í stöðunni 1-0 í seinni hálfleik áður en Luciano Vietto jafnaði metin undir lokin fyrir Atletico.

Eftir leikinn fékk Ramos að heyra það frá Benítez fyrir að gefa víti í fyrri hálfleiknum, jafnvel þó Antoine Griezmann hafi klúðrað vítaspyrnunni.

„Ég vona að hvað það sem hann hefur að segja, þá muni hann segja það næst þegar við hittumst," sagði Ramos, aðspurður út í gagnrýni Benítez.

„Þetta voru svekkjandi mistök en ég missi engan svefn yfir þessu. Ég hef engar áhyggjur því það gera allir mistök og enginn gerir þau viljandi. Sem betur fer varði Keylor Navas vítið og það hafði ekki áhrif á úrslitin."

„En alveg eins og fólk talar um mistökin mín, þá mun fólk líka tala um skiptingarnar hans."


Benítez hefur fengið töluverða gagnrýni fyrir áðurnefndar skiptingar. Þegar Karim Benzema var spurður eftir leikinn hvers vegna hann væri alltaf tekinn út af, þá svaraði hann í pirringi að blaðamenn yrðu að spyrja Benítez að því.
Athugasemdir
banner
banner
banner