Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 06. október 2015 14:00
Magnús Már Einarsson
Þorvaldur Örlygs líklegastur til að taka við Keflavík
Þorvaldur Örlygsson.
Þorvaldur Örlygsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Gunnar Oddsson er á leið í stjórn Keflavíkur.
Gunnar Oddsson er á leið í stjórn Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorvaldur Örlygsson er líklegastur til að taka við þjálfun Keflavíkur samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Keflvík hefur boðað til aukaaðalfundar á fimmtudag en þar mun núverandi stjórn knattspyrnudeildar stíga til hliðar. Jón G. Benediktsson er verðandi formaður en hann er einn í kjöri. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta í dag.

Nýir stjórnarmenn í knattspyrnudeild með Jóni verða Gunnar Oddsson, Karl Finnbogason, Hermann Helgason og Þorleifur Björnsson. Gunnar þekkir fótboltann í Keflavík inn og út en hann er fyrrverandi leikmaður og þjálfari liðsins.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur verðandi stjórn rætt við Þorvald um að taka við þjálfun Keflavíkur.

Í samtali við Fótbolta.net sagðist Gunnar Oddsson ekki vilja ræða neitt um þjálfaramál fyrr en eftir að búið væri að kjósa í stjórn á aukaaðalfundinum á fimmtudag.

Þorvaldur hætti sem þjálfari HK um síðustu helgi eftir tveggja ára starf en hann hefur einnig þjálfað Fram, ÍA, KA og Fjarðabyggð á ferli sínum. Ef hann tekur við liði Keflavíkur tekur hann við keflinu af Hauki Inga Guðnasyni og Jóhanni Birni Guðmundssyni sem stýrðu liðinu síðari hluta sumars.

Á vef Víkurfrétta er fjallað nánar um stjórnarskiptin í Keflavík en mikið hefur verið rætt um stjórnarmál á þeim bænum á þessu ári. Snemma á þessu ári sýndi hópur fólks áhuga á að taka við deildinni og bauð fram Baldur Guðmundsson sem formann. Núverandi stjórn var ekki tilbúin í breytingar og varðist þannig að formaður hélt velli á mjög fjölmennum aðalfundi.

Ný stjórn mun nú taka við en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð Þorsteins Magnússonar, framkvæmdastjóra og núverandi formanns deildarinnar. Hann mun sinna starfi framkvæmdastjóra áfram og vinna með nýrri stjórn að sögn Víkurfrétta. Jón G. tekur hins vegar við sem formaður.

„Þetta er sveit veðhlaupahesta sem bíður eftir því að fá að hlaupa. Við lítum á þetta sem nýtt upphaf fyrir Keflavík og hlökkum mikið til. Menn eru ótrúlega spenntir,“ segir Jón við Víkurfréttir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner