Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 07. maí 2015 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sérfræðingar Sky: Var þetta hugrekki eða heimska hjá Pep?
Guardiola er þekktur fyrir að taka djarfar ákvarðanir.
Guardiola er þekktur fyrir að taka djarfar ákvarðanir.
Mynd: Getty Images
Eto'o og Henry spiluðu saman undir stjórn Pep hjá Barcelona.
Eto'o og Henry spiluðu saman undir stjórn Pep hjá Barcelona.
Mynd: Getty Images
Gary Neville og Jamie Carragher voru lengi erkifjendur innan vallar en eru nú góðir félagar í starfi sínu hjá Sky.
Gary Neville og Jamie Carragher voru lengi erkifjendur innan vallar en eru nú góðir félagar í starfi sínu hjá Sky.
Mynd: Getty Images
Jamie Redknapp, fyrrverandi leikmaður Liverpool, starfar einnig sem sérfræðingur hjá Sky.
Jamie Redknapp, fyrrverandi leikmaður Liverpool, starfar einnig sem sérfræðingur hjá Sky.
Mynd: Getty Images
Sérfræðingar Sky Sports veltu því fyrir sér hvort Pep Guardiola hafi verið hugrakkur eða heimskur að stilla upp sóknarsinnuðu liði sem spilaði maður á mann vörn fyrstu 20 mínúturnar í viðureign Barcelona og Bayern München í gær.

Bayern hóf leik með þrjá menn í vörn, sem dekkuðu Luis Suarez, Neymar og Lionel Messi, á meðan fimm voru að passa miðjumenn og bakverði Börsunga og tveir fremstu menn dekkuðu miðverðina og pressuðu hátt upp völlinn.

Langflestir sérfræðingar, mögulega allir, bjuggust við því að Bayern myndi stilla upp hefðbundnari uppstillingu, sérstaklega í fjarveru lykilmanna á borð við Franck Ribery, Arjen Robben og David Alaba.

„Manni er ekki vel við að kalla Pep Guardiola heimskan því hann er einn af bestu þjálfurunum en það var heillandi að sjá hvernig hann reyndi að stöðva Barcelona," sagði Jamie Carragher.

„Það var heillandi að fylgjast með þessu, hápressa, maður á mann allsstaðar á vellinum. Hversu hugrakkt var það? Að vera þrír gegn þremur í vörn. Við köllum þetta hugrekki en þetta var í raun brjálæði að verjast svona gegn bestu sóknarmönnum heims. Barca hefði getað gert út um leikinn á fyrsta korterinu."



„Pep Guardiola kom okkur öllum á óvart. Ótrúlegt en satt, þá stillti hann Rafinha upp sem vinstri miðverði þegar ég bjóst við að hann yrði hægri bakvörður," sagði Gary Neville.

„Við héldum að Thiago Alcantara yrði í holunni eða á vinstri kanti, en hann var settur á hægri kant. Svo eru Philipp Lahm og Xabi Alonso á miðjunni á meðan Bastian Schweinsteiger fer í holuna til að pressa á Sergio Busquets. Ég veit ekki hvað þetta á að þýða en þetta er allt öðruvísi en við höfðum hugsað okkur.

„Pep Guardiola er mögulega eini þjálfari heims sem myndi stilla svona upp á Nývangi. Þrír á móti þremur gegn Messi, Neymar og Suarez! Allir aðrir myndu hugsa um hvernig væri best að tvöfalda dekkninguna á þeim.

„Þeim hlýtur að líða eins og börnum í sælgætisbúð. Þetta eru leikmenn sem elska að taka varnarmenn á en eru vanir því að fá ekkert pláss til að athafna sig í, hérna fá þeir allt plássið sem þeir vilja."




„Mér fannst þetta vera knattspyrnusjálfsmorð. Guardiola var virkilega heppinn, það var augljóst að leikmennirnir voru týndir. Þeir horfðu á Pep og það var eins og þungu fargi hefði verið létt af þeim þegar hann ákvað loksins að enda þetta brjálæði og breyta leikkerfinu," hafði Jamie Redknapp að segja um málið.

„Hann er einn af bestu stjórum allra tíma en mér fannst hann reyna alltof mikið. Hann er að reyna of mikið að vera ekki eins og Jupp Heynckes (sem vann þrennuna með Bayern 2012-13) með því að spila óhefðbundnari fótbolta.

„Þetta eru gáfaðir leikmenn, Heimsmeistarar, og þeir hljóta að hafa hugsað um hvers vegna þeir voru að spila svona."




Að lokum tjáði Thierry Henry sig um málið. Henry lék undir stjórn Guardiola hjá Barcelona og sagði að leikmennirnir hafi reglulega verið hissa á ákvörðunum stjórans.

„Ég man þegar við heimsóttum Real Madrid og Pep byrjaði að nota Lionel Messi sem falska níu og notaði mig og Samuel Eto'o við hliðina á honum. Allir spurðu sig hvað í ósköpunum hann væri að gera. Svo byrjaði hann að nota Dani Alves sem sóknarsinnaðan kantmann," sagði Henry brosandi.

„Þessar tilraunir virkuðu hjá honum, en í dag gekk tilraunin hans ekki upp."
Athugasemdir
banner