Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   þri 07. maí 2024 16:06
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Akranesvöllur óleikhæfur í dag - „Orðinn það gamall að það er mikið vandamál"
Svona leit Akranesvöllur út í ágúst í fyrra.
Svona leit Akranesvöllur út í ágúst í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Úr leik ÍA og Grindavíkur sem fram fór 6. maí í fyrra.
Úr leik ÍA og Grindavíkur sem fram fór 6. maí í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA mætir Vestra í 6. umferð Bestu deildarinnar. Það gæti orðið fyrsti leikur ÍA á Elkem vellinum á Akranesi. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, er fyrrum þjálfari Vestra. Hann var þjálfari Vestra tímabilið 2021 og var fenginn til ÍA eftir það tímabil.

Fótbolti.net ræddi við Jón Þór í dag og var spurt út í tilfinninguna að mæta Vestra.

„Þetta eru alltaf hörkuleikir, Vestri er með hörkulið, gríðarlega vel mannað lið og góða fótboltamenn innanborðs. Það er erfitt fyrir hvaða lið sem er að mæta Vestra. Fyrir mig persónulega er þarna fólk sem mér þykir vænt um og fyrir þær sakir er alltaf sérstakt að mæta Vestra," sagði Jón Þór.

Í kjölfarið barst talið að vellinum sem ekki hefur verið spilað á til þessa. ÍA hefur spilað heimaleikina tvo í Akraneshöllinni.

„Við erum vonandi að fara spila fyrsta leikinn okkar á Akranesvelli á laugardaginn og ætlum okkur þrjú stig þar, það er klárt."

Hvernig lítur völlurinn út?

„Hann lítur mjög vel út, en þetta er bara ónýtur völlur. Þegar það rignir þá nánast verður hann óleikhæfur vegna þess að hann drenar lítið sem ekki neitt og fer alveg á flot. Vegna vatnslagna á íþróttasvæðinu þá getum við ekki verið með vökvunarkerfi á vellinum og ekki vökvað hann þegar það er þurrt. Það segir sig því sjálft að það er mjög erfitt að halda góðum grasvelli við þannig. Þessi völlur er bara barn síns tíma og það eru allir að gera sitt allra besta til að hafa hann eins góðan og hægt er. Hann er miklu, miklu betri en í fyrra til dæmis en því miður er hann orðinn það gamall að það er mikið vandamál."

Af því þú segir að þið munið vonandi spila fyrsta leikinn á honum um helgina. Er eitthvað plan B?

„Ekkert sem ég veit um. Eins og staðan er í dag þá er völlurinn ekki leikhæfur vegna bleytu. Ég veit ekki hvernig sú staða verður á laugardaginn. Auðvitað vonumst við eftir því að hann verði leikfær. Ég held að það eigi ekki að rigna það mikið í vikunni og hann vonandi þornar vel á milli rigninga. Ég hef fulla trú á því að hann nái því," sagði Jón Þór að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner