þri 07. júlí 2015 16:30
Magnús Már Einarsson
Bestur í 2. deild: Lít á þetta sem heimaleik fyrir mig
Leikmaður 10. umferðar - Marteinn Urbancic (ÍR)
Marteinn í leiknum á laugardag.
Marteinn í leiknum á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Sigurinn gegn Huginn var einn af þessum leikjum þar sem sigurinn gat dottið báðu megin," segir Marteinn Pétur Urbancinc leikmaður 10. umferðar í 2. deild karla.

Marteinn lagði upp bæði mörk ÍR í 2-1 sigri á Huginn í toppslag í 2. deildinni um helgina.

„Bæði lið sóttu mikið og ég held að sigurviljinn hafi verið aðeins meiri hjá okkar mönnum. Þeir eru með frábært sóknarlið og með mjög góða erlenda leikmenn. Þessi leikur var svokallaður sex stiga leikur og því mjög mikilvægur í toppbaráttunni," sagði Marteinn sem átti góðan dag.

„Ég var ágætlega sáttur við frammistöðuna í leiknum, það er alltaf hægt að gera betur en ég er mjög ánægður að vera kominn aftur á völlinn í meira en 10 mínútur. Sumarið í fyrra voru algjör vonbrigði, þar sem ég meiddist á fyrstu æfingunni og spilaði bara tvo leiki allt sumarið. Núna er maður alveg laus við öll meiðsli og þá er bara að sýna hvað ég hef upp á að bjóða."

ÍR hefur unnið níu af fyrstu tíu leikjum sínum í 2. deildinni í sumar. Hvað er breytt hjá liðinu frá því í fyrra?

„Ég er sjálfur í skóla í Bandaríkjunum og kem heim þremur dögum fyrir mót. Í þetta skiptið var ÍR liðið í mun betra líkamlegu formi en það hefur verið síðustu tvö sumur og greinilegt að Addó og Eiður hafa látið strákana æft á frábæru tempói í vetur. Einnig held ég að það að vera með mjög góðan 25 manna hóp með mikilli breidd hafi hjálpað ÍR í sumar."

„Ef við höldum áfram að klára þessa leiki sem gætu dottið sitt hvoru megin þá held ég að þetta gæti verið sumarið sem ÍR fer upp. Ég skynja það á mannskapnum að það séu allir mjög tilbúnir í að spila á hærra leveli. Síðan er bara að sjá hvernig stigasöfnunin gengur í seinni hluta mótsins."

Hinn 22 ára gamli Marteinn er uppalinn hjá KR en hann hefur leikið með ÍR undanfarin þrjú ár.

„Mér líkar mjög vel í ÍR. Það er megin ástæðan fyrir því að ég kem alltaf aftur hingað á sumrin til að spila. Bæði leikmennirnir og þjálfarar eru skemmtilegir og mjög létt yfir mannskapnum. Flott umgjörð og allir að stefna að sama markmiði."

Næsti leikur ÍR er gegn KV í Vesturbænum á föstudagskvöld en það er síðasti leikurinn í fyrri umferðinni.

„Það er alltaf gaman að spila á móti KV. Ég er sjálfur KR-ingur og ólst upp á KR-gervigrasinu, þannig ég lít á þetta sem heimaleik fyrir mig. Hjörvar og Atli þjálfarar KV þjálfuðu mig báðir í yngri flokkum KR, þannig það verður bara gaman að koma aftur í Frostaskjólið til að spila. Leikirnir gegn KV hafa verið mjög fjörugir síðustu ár og mörg mörk skoruð. Vonandi verður það sama upp á teningnum í þetta skiptið," sagði Marteinn.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Davíð Guðlaugsson (Njarðvík)
Bestur í 2. umferð - Birkir Pálsson (Huginn)
Bestur í 3. umferð - Jóhann Arnar Sigurþórsson (ÍR)
Bestur í 4. umferð - Ásgrímur Gunnarsson (KV)
Bestur í 5. umferð - Björgvin Stefán Pétursson (Leiknir F.)
Bestur í 6. umferð - Ben Griffiths (Tindastóll)
Bestur í 7. umferð - Halldór Logi Hilmarsson (KF)
Bestur í 8. umferð - Jón Gísli Ström (ÍR)
Bestur í 9. umferð - Paul Bodgan Nicolescu (Leiknir F.)
Athugasemdir
banner
banner
banner