Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 07. júlí 2015 13:40
Elvar Geir Magnússon
Chuck: Vöðvarnir þurfa að venjast kuldanum
Chuck er að mæta í Pepsi-deildina á nýjan leik.
Chuck er að mæta í Pepsi-deildina á nýjan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Chuck fer í harða fallbaráttu með Keflvíkingum.
Chuck fer í harða fallbaráttu með Keflvíkingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Auðvitað er ég spenntur að koma aftur. Ég naut fótboltans á Íslandi og fólkið þar er mjög vingjarnlegt," segir Chukwudi Chijindu, betur þekktur sem Chuck, í samtali við Fótbolta.net en hann er væntanlegur aftur til Íslands í næstu viku.

Chuck hefur samið við Keflavík út tímabilið og hann mun reyna að hjálpa liðinu í fallbaráttunni í Pepsi-deildinni. Chuck þekkir vel til í íslenska boltanum en hann kom til Þórs í júlí 2012 og spilaði með liðinu þar til í fyrrahaust.

„Þetta er auðvitað erfið staða í augnablikinu en þetta er spennandi verkefni. Margir vita ekki að þegar ég kom fyrst til Þór þá var liðið í 6. sæti í 1. deildinni. Ég náði vel saman með leikmönnunum þar og við unnum ellefu leiki í röð. Við unnum deildina og settum stigamet. Vonandi get ég haft sömu áhrif hjá Keflavík og hjálpað liðinu að halda sér uppi."

Orðinn góður af meiðslunum
Chuck missti af fyrri hluta síðasta tímabils vegna meiðsla og hann hefur frá því á síðasta tímabili unnið í að ná sér alveg góðum af þeim.

„Ég hef eytt miklum tíma í að einbeita mér að líkama mínum og ná mér. Síðasta tímabil var erfitt því að ég gat ekki hjálpað liðinu eins og ég vildi. Síðasta tímabil er að baki og nú mun ég gera mitt besta," segir Chuck og bæir við að hann sé í fínu standi.

„Ég held mér í formi allt árið um kring. Hvort sem það væri til að spila fótbolta eða vinna á skrifstofu. Heilsan er mikilvæg og ég er í góðu formi. Veðrið er aðalmunurinn. Ég er að æfa í 35 gráðum núna," segir Chuck og hlær.

„Það verður mesta málið, að láta vöðvana venjast því að æfa aftur í kuldanum. Það mun taka nokkrar vikur en ég hef ekki áhyggjur af neinu öðru. Ég ætla að gera mitt besta með nýju félagi og vonandi náum við góðum úrslitum."

Fleiri íslensk félög sýndu áhuga í vetur
Keflavík og fleiri íslensk félög höfðu reynt að krækja í Chuck í byrjun árs en þá varð ekkert af samningum.

„Í kringum febrúar var ég í sambandi við mörg íslensk félög. Allt gerist af ástæðu og ég get ekki sagt til um það af hverju þetta gerðist ekki þá. Keflavík hafði samband við mig í byrjun árs en það gekk ekki af einhverri ástæðu. Tímasetningin var betri núna. Ég vil ekki velta því fyrir mér af hverju það er. Ég lifi fyrir hvern dag í einu. Ég velti mér ekki upp úr fortíðinni. Við höfum náð samkomulagi núna og ég hlakka til þess að njóta þess að spila fótbolta á nýjan leik," sagði Chuck.

Framundan er gríðarleg barátta hjá Keflvíkingum fyrir því að halda sæti sínu í deildinni en liðið mætir Leikni í afar mikilvægum fallbaráttuslag um komandi helgi. Chuck verður löglegur þegar félagaskiptaglugginn opnar þann 15. júlí og leikur því væntanlega sinn fyrsta leik fyrir Keflavík gegn Víkingi sunnudaginn 19. júlí.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner