Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   mið 08. maí 2024 10:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kallið kom heilmikið á óvart - „Aldrei fengið svona mikla athygli"
Það kom Magnúsi á óvart að vera í byrjunarliðinu gegn Vestra.
Það kom Magnúsi á óvart að vera í byrjunarliðinu gegn Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Tilfinningin var frábær, ég var svo spenntur að ég átti erfitt með að sofa.'
'Tilfinningin var frábær, ég var svo spenntur að ég átti erfitt með að sofa.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hef aldrei fengið svona mikla athygli áður'
'Ég hef aldrei fengið svona mikla athygli áður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann er búinn að þjálfa mig og systkini mín í þrettán ár'
'Hann er búinn að þjálfa mig og systkini mín í þrettán ár'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við sáum svo að þetta virkaði vel í leiknum líka og þá jókst trúin
Við sáum svo að þetta virkaði vel í leiknum líka og þá jókst trúin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús hirti boltann af Pablo í fyrsta marki HK.
Magnús hirti boltann af Pablo í fyrsta marki HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús og Arnþór léku saman inn á miðsvæðinu og skoruðu báðir.
Magnús og Arnþór léku saman inn á miðsvæðinu og skoruðu báðir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er að fíla mig mjög vel, mjög góður hópur að koma inn í,” sagði Magnús Arnar Pétursson, ein af hetjum HK gegn Víkingi, við Fótbolta.net í dag.

Magnús er orðinn átján ára, átti afmæli í febrúar en þegar leitað er eftir nafni hans á netinu er afmælisdagurinn rangur.

Lestu um leikinn: HK 3 -  1 Víkingur R.

Hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með HK árið 2022 þegar liðið var í Lengjudeildinni. Hann var lítið í kringum liðið í fyrra þar sem hann rifbeinsbrotnaði veturinn fyrir Íslandsmótið og spilaði með 2. flokki um sumarið.

Magnús var maður leikins gegn Víkingi og valinn sterkasti leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolti.net. Leikurinn gegn Víkingi var annar byrjunarliðsleikur Magnúsar í deildinni en hann byrjaði fyrsta leikinn sinn gegn Vestra í 4. umferðinni.

„Það kom mér heilmikið á óvart að byrja þann leik. Ómar var að lesa upp vörnina, ég hafði komið inn á sem hægri bakvörður í leiknum á undan þar sem Kristján (Snær Frostason) fékk eitthvað í ökklann. Ómar las upp Birki (Val Jónsson) í hægri bakverði þannig ég hugsaði að ég væri ekkert í liðinu. Svo var miðjan lesin upp og ég var þar.”

„Tilfinningin var frábær, ég var svo spenntur að ég átti erfitt með að sofa. Ég vaknaði snemma og var að bíða eftir leiknum,”
sagði Magnús sem átti góðan leik gegn Vestra og hélt sæti sínu í liðinu.

Hann hefur verið í meistaraflokkshópnum í vetur en í byrjun móts var hann ekki að byrja. „Þegar maður fær ekki byrjunarliðssæti þá keppir maður með 2. flokki til þess að fá fleiri mínútur yfir vikuna.”

Að spila á miðjunni er frekar nýtilkomið hjá Magnúsi. Hann spilaði þessa stöðu fyrst með B-liði 2. flokks í fyrra en fyrir það var hann í miðverðinum.

„Ég var alltaf hafsent. Það gerðist bara í fyrra, þegar ég var með A2 liðinu í 2. flokki. Þar var ég með þeim betri á vellinum, var settur á miðjuna og þetta hefur einhvern veginn þróast þannig. Þetta er miklu skemmtilegra en að spila hafsent. Maður fær að taka einhvern þátt í leiknum yfir höfuð.”

Setti pressu á reynsluboltana
Hvernig var að glíma við Pablo Punyed og Matta Villa?

„Það var mjög gaman að fá að keppa á móti einhverjum sem vita miklu meira um leikinn heldur en maður sjálfur. Ég kom þeim örugglega á óvart með því hversu mikið ég kom út í þá, í staðinn fyrir að vera bara að halda þeim.”

Var það hugsunin komandi inn í leikinn að vera áræðinn?
„Já, ég vildi vera kraftmikill og koma svolítið hratt í þá.”

Aldrei fengið svona mikla athygli áður
Hvernig voru mínúturnar og klukkutímarnir eftir leikinn, varstu að fá mikið af skilaboðum?

„Ég hef aldrei fengið svona mikla athygli áður.”

Markmiðið að koma sér í U19
Magnús á að baki einn leik fyrir U16. Hann hefur verið í kringum yngri landsliðin þegar leikmenn á Íslandi koma saman og æfa. „Eina verkefnið sem ég var valinn í voru leikir í Svíþjóð.”

„Vonandi næ ég að banka nógu fast á dyrnar hjá U19. Markmiðið er að toppa sig alls staðar. Núna er maður kominn inn í liðið hjá meistaraflokknum og þá er bara næst að reyna koma sér í landsliðið.”


Höfðu trú á kerfinu eftir góða æfingaviku
HK fór í fimm manna vörn í leiknum gegn Víkingi. Kom það þér á óvart?

„Við vissum það í vikunni fyrir leikinn, tókum nokkrar æfingar þar sem við fórum yfir þetta. Ég var mjög glaður með það. Þeir sem voru ekki að fara byrja voru að spila á móti okkur á æfingunni og þetta virkaði vel á æfingunum og við höfðum því allir trú á þessu. Við sáum svo að þetta virkaði vel í leiknum líka og þá jókst trúin.”

Hefur verið rætt innan hópsins að halda áfram í þessu kerfi?

„Ég veit ekki hvað við gerum. Ég held það komi frekar í ljós á æfingunni í dag.”

„Hugsaði að það yrðu alltaf langbestu miðjumenn deildarinnar á móti mér"
Það kom mörgum á óvart að sjá Pálma Rafn Arinbjörnsson í markinu hjá Víkingi í stað Ingvars Jónssonar. Er liðsval Víkinga eitthvað sem HK-ingar spá í síðasta klukkutímann fyrir leik?

„Allavega ekki ég, ég veit ekki hvort að framherjarnir hafi eitthvað spáð í því að Pálmi væri í markinu eða ekki. Ég hugsaði bara að það breytti engu hverjir myndu byrja. Þetta yrðu alltaf langbestu miðjumennirnir í deildinni sem væru að fara spila á móti mér.”

Breyttist eitthvað þegar Aron Elís Þrándarson kom inn á í hálfleik?

„Hann var einhvern veginn aðeins meira frír á miðjunni. Hann var svolítið í því að fara upp í fremstu línu og Steini (Þorsteinn Aron Antonsson) var með hann. Ég og Arnþór (Ari Atlason) vorum stundum ekki með mann á móti okkur á miðjunni. Mér fannst spilið þeirra minnka en komust samt alveg stundum í gegnum okkur.”

Þurfti að horfa á lokamínúturnar af bekknum
Var stress undir lokin að þeir myndu ná að jafna?

„Ég var allavega orðinn drullu stressaður á bekknum. En maður treystir á liðið.”

Miðjumaðurinn fékk krampa í leiknum og fór í kjölfarið af velli. „Maður leggur sig allan fram og þá kemur stundum krampi."

Eiginlega hluti af fjölskyldunni
Ómar hefur þjálfað Magnús frá því hann var mjög ungur.

„Hann er búinn að þjálfa mig og systkini mín í þrettán ár. Ég er átján ára og hann er því eiginlega hluti af fjölskyldunni. Hann er alvarlegri sem þjálfari meistaraflokks miðað við í yngri flokkunum," sagði Magnús að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner