Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 08. nóvember 2016 17:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hér varð hrun
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Hernan Crespo fagnar marki þegar allt var í blóma hjá Parma.
Hernan Crespo fagnar marki þegar allt var í blóma hjá Parma.
Mynd: Getty Images
Byrjunarlið Parma í úrslitaleiknum í Evrópukeppni félagsliða árið 1999.
Byrjunarlið Parma í úrslitaleiknum í Evrópukeppni félagsliða árið 1999.
Mynd: BBC
Alessandro Lucarelli, núverandi fyrirliði Parma, fagnar því að liðið komst upp úr D-deildinni á árinu.
Alessandro Lucarelli, núverandi fyrirliði Parma, fagnar því að liðið komst upp úr D-deildinni á árinu.
Mynd: Getty Images
Íslenska landsliðið býr sig undir landsleikinn mikilvæga gegn Króatíu á æfingasvæði fornfrægs fótboltafélags, Parma á Ítalíu. Undirbúningurinn fyrir fyrsta leik undankeppninnar gegn Úkraínu var að mestu í Þýskalandi og er þetta því í annað sinn sem Ísland býr sig undir leik með þessum hætti.

Í gær var æft á aðalleikvangi Parma, Stadio Ennio Tardini, sem sést úr herbergisgluggum hótels Fótbolta.net hér í borginni. Augu heimsins beindust oft að þessum leikvangi þegar ítalska deildin var sú sterkasta og vinsælasta í Evrópu og bestu leikmenn heims voru þar. Þá var Parma stórlið.

1992 varð Parma bikarmeistari í fyrsta sinn. Næstu tíu ár á eftir var liðið stórveldi í Evrópu þó það hafi ekki náð að enda ofar en í öðru sæti ítölsku A-deildarinnar. Þrír Evróputitlar (UEFA bikarinn einu sinni og Evrópumeistar bikarhafa tvívegis) komu í hús og tveir bikartitlar heima á Ítalíu til viðbótar.

Unglingastarfið skilaði upp góðum leikmönnum og stórstjörnur voru keyptar. Hernan Crespo, Lilian Thuram, Faustino Asprilla og Fabio Cannavaro klæddust treyju Parma svo nokkur risanöfn séu nefnd. Þá var sko gaman að vera stuðningsmaður Parma.

Mjólkurkúin sprakk
Parmalat mjólkurfyrirtækið fékk hjólin til að snúast en það eignaðist félagið og fjármagn frá því byggði upp þetta öfluga lið. Velgengni Parma stuðlaði meðal annars að því að Parmalat stækkaði ógnarhratt og varð áttunda stærsta fyrirtæki Ítalíu. En áfallið dundi yfir 2003.

Calisto Tanzi, sem var framkvæmdastjóri Parmalat og æðsti maður fótboltafélagsins Parma, var dæmdur í langt fangelsi fyrir risastórt fjármálamisferli og fjárhagsglæpi. Parmalat hafði safnað miklum skuldum og Parma var sett í greiðslustöðvun.

Það tók fjögur ár fyrir Parma að fá nýjan eiganda en Tommaso Ghirardi eignaðist félagið 2007. Hann er oft nefndur sem hataðasti maður Parma í dag. Félagið var laust við Parmalat skuldirnar þegar Ghirardi kom til sögunnar en í fyrstu virtist hann mjög efnaður og traustur maður með mikla ástríðu fyrir félaginu.

Annað átti eftir að koma á daginn og fljótlega komu fram vísbendingar um að ekki væri allt eins og það sýndist. Fréttir fóru að berast af því að launagreiðslur starfsfólks og leikmanna væru ekki að skila sér frá félaginu. Parma neitaði þessum fréttaflutningi í fyrstu en það voru lygar.

Í ljós kom að Parma skuldaði skyndilega meira en 22 milljarða íslenskra króna og Ghiradi var rannsakaður vegna gruns um sviksamlegt gjaldþrot. Parma var ekki eina félagið í tómu tjóni því reglurnar á Ítalíu gerðu mörgum félögum auðvelt að safna skuldum. Í annað sinn varð Parma gjaldþrota, tíu árum eftir Parmalat hrunið.

Aftur byrjað á botninum
Haldinn var fréttamannafundur þar sem sagt var að félagið ætti ekki pening til að spila heimaleiki því það hefði ekki efni á að borga gæslumönnum og öðru starfsfólki. Þá væru heldur ekki til peningar til að borga fyrir ferðalög leikmanna í útileiki. Það var einfaldlega ekki til króna hjá Parma og félagið lýsti yfir gjaldþroti 2014.

Parma-skinkan stóð ein eftir sem stolt Parma. Fótboltinn var hruninn.

Úr öskustónni var Parma endurstofnað sumarið 2015 og þurfti að hefja leik í D-deild ítalska boltans á síðustu leiktíð. Pastaframleiðandinn Guido Barilla fjármagnar félagið og Nevio Scala, fyrrum þjálfari Parma, er forseti félagsins.

Á fyrsta ári í D-deildinni setti Parma stigamet og er nú í toppbaráttu C-deildarinnar. Bílstjórinn sem keyrði mig og Magnús Má Einarsson til Parma frá flugvellinum á Ítalíu er sannfærður um að Parma mæti aftur til leiks í ítölsku A-deildina innan nokkurra ára og sú mikla fótboltaástríða sem ríkir í borginni fái aftur að njóta sín.
Athugasemdir
banner
banner