þri 09. febrúar 2016 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Xabi Alonso: Ekkert breyst í búningsklefanum
Mynd: Getty Images
Búið er að tilkynna að Pep Guardiola hættir með Bayern München í sumar og tekur við Manchester City í ensku úrvalsdeildinni og hafa ýmsir sparkspekingar haldið því fram að þessi tilkynning geti komið niður á árangri Bayern á tímabilinu.

Xabi Alonso, miðjumaður Bayern, er ósammála og segir þessa tilkynningu hvorki hafa áhrif á leikmenn liðsins né þjálfarann.

„Mér finnst ekkert hafa breyst í búningsklefanum. Við vitum hvernig knattspyrnuheimurinn virkar og við erum vanir því að reynt sé að hafa áhrif á okkur með alskonar fregnum og sögusögnum," sagði Alonso við þýska miðilinn TZ.

„Þetta hefur engin áhrif á okkur og það er það sem skiptir öllu máli. Við erum atvinnumenn og það er stjórinn líka, þetta hefur engin áhrif á metnaðinn hans eða einbeitingu."

Bayern er í góðum málum í bæði deild og bikar, þar sem liðið er með átta stiga forystu á toppi deildarinnar og mætir B-deildarliði Bochum í 8-liða úrslitum bikarsins.

Verðugasta verkefnið sem er framundan hjá Bayern er eflaust útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, þar sem liðið á næst leik við Juventus í 16-liða úrslitum þann 23. febrúar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner