Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 09. október 2015 16:08
Magnús Már Einarsson
Bjarni Jó ráðinn þjálfari ÍBV (Staðfest)
Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Eyjamenn stefna hærra.
Eyjamenn stefna hærra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari ÍBV en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í Flugstöðinni í Vestmannaeyjum nú rétt í þessu.

Bjarni þekkir vel til í Eyjum en hann þjálfaði ÍBV frá 1997 til 1999. Liðið varð Íslandsmeistari undir hans stjórn 1997 og 1998 og árið 1999 endaði liðið í 2. sæti í deildinni. ÍBV varð einnig bikarmeistari undir stjórn Bjarna árið 1998.

Bjarni tekur við ÍBV eftir að Ásmundur Arnarsson og Jóhannes Harðarson gáfu félaginu báðir afsvar um að halda áfram.

„Liverpool var líka að kynna nýjan þjálfara í dag. Ætli við höfum ekki það markmið að komast í Evrópukeppni á undan Liverpool," sagði Bjarni léttur í bragði.

„Ég vonast eftir skemmtilegum árum hérna. Það er kraftur í peyjunum hérna og ég hlakka til."

Bjarni er mjög reyndur þjálfari en hann hefur meðal annars einnig stýrt KA, Stjörnunni, Fylki og Grindavík hér á landi auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins um tíma.

„Hann þekkir okkar og hann þekkir samfélagið. Það er allt til alls til að koma á góðu og farsælu samstarfi," sagði Ingi Sigurðsson í stjórn knattspyrnudeildar á fréttamannafundinum í dag.

„Hann hefur gífurlega reynslu og er búinn að upplifa allt í knattspyrnuheiminum á Íslandi. Það er ánægjulegt fyrir okkur að endurnýja kynnin við hann."

ÍBV endaði í 10. sæti í Pepsi-deildinni í sumar en í Eyjum ætla menn að spýta í lófana og gera mun betur á næstu árum.

„Það er táknrænt að skrifa undir í flugstöðinni í Eyjum. ÍBV hefur verið í kjallaranum í efstu deild undanfarið en nú er kominn tími á að taka á flug og komast hærra í deildinni. Það er skýrt markmið að koma ÍBV mun hærra á næsta tímabili. Bjarni hefur fengið þau skilaboð frá stjórninni og við erum tilbúnir í slaginn," sagði Ingi.

„Við vonumst til að mynda öflugan leikmannahóp á næstu vikum og byggja upp framtíðar. Við viljum ekki byggja upp lið fyrir eitt keppnistímabil í einu heldur til lengri tíma."

Viðtal við Bjarna Jóhannsson kemur hér á Fótbolta.net síðar í dag.
Athugasemdir
banner
banner