banner
   fös 09. október 2015 17:00
Elvar Geir Magnússon
Charley Fomen fer frá Leikni - Vill spila áfram á Íslandi
Charley Fomen.
Charley Fomen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kamerúnski bakvörðurinn Charley Fomen er á förum frá Leikni Reykjavík.

Charley kom til Leiknis í vor og skoraði eitt mark í sautján leikjum þegar Leiknir féll úr Pepsi-deildinni í sumar.

Charley var á sínum tíma á mála hjá franska stórliðinu Marseille en hann spilaði síðan í þrjú ár með Clermont Font í frönsku B-deildinni.

Vorið 2014 var Charley á reynslu hjá FH-ingum sem vildu fá hann í sínar raðir en ekki náðist að ganga frá leikheimild í tæka tíð.

Charley, sem lék áður með yngri landsliðum Kamerún, hefur mikinn áhuga á að leika áfram á Íslandi.

„Ég vil vera áfram á Íslandi. Mér hefur líkað vel hér," sagði Charley við Fótbolta.net í dag.

Það má búast við fleiri breytingum á leikmannahópi Leiknismanna en allt bendir til þess að Hilmar Árni Halldórsson sé á förum frá félaginu. Hilmar sem var næst stoðsendingahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar er að renna út á samning og er mikill áhugi á honum.

Davíð Snorri Jónasson og Freyr Alexandersson hættu sem þjálfarar Leiknis um síðustu helgi. Samkvæmt fréttum úr Breiðholtinu má búast við fréttum af þjálfaramálum bráðlega en Kristján Guðmundsson hefur verið orðaður við stöðuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner