fös 09. október 2015 09:51
Magnús Már Einarsson
Klopp lofar titli innan fjögurra ára
Mynd: Getty Images
„Ef ég sit hér ennþá eftir fjögur ár þá verðum við búnir að vinna titil," sagði Jurgen Klopp á fréttamannafundi í dag þegar hann var kynntur sem nýr stjóri Liverpool.

„Ég bið vinsamlegast um að fá tíma. Ef þið eruð þolinmóðir og tilbúnir að leggja hart að ykkur þá getum við náð velgengni."

Aðspurður hvort hann geti gert sömu hluti og bestu stjórar í sögu Liverpool sagði hann: „Ég vil ekki bera mig saman við snillingana sem hafa þjálfað Liverpool í sögunni. Ég vil ekki hugsa um þetta, þetta er ekki mikilvægt," sagði Klopp.

„Það er mjög flott að þið (fjölmiðlar) eruð spenntir fyrir næstu mánuðum og árum með mér en ég hugsa ekki um það. Enginn af þessum frábæru stjórum hefur mætt á fyrsta fréttamannafund og sagt 'markmið mitt er að verða goðsögn hér."

Klopp hefur engar áhyggjur af því að það verði erfitt fyrir sig að vinna með sérstakri leikmannanefnd hjá Liverpool.

„Þetta eru fáránlegar umræður. Þetta er ekki vanadmál. Við höfum rætt um þetta. Ég er ekki snillingur. Ég veit ekki meira en aðrir í heiminum. Ég þarf annað fólk sem getur gefið mér fullkomnar upplýsingar. Þegar við höfum þær þá kaupum við eða seljum leikmenn. Það er mjög auðvelt að meðhöndla þetta."

Frá því í vor hefur Klopp verið í fríi frá fótbolta en á fréttamannafundinum í dag greindi hann frá því að hann hefði verið með fjölskyldu sinni, spilað tennis í sumar og horft á fótbolta víðsvegar um heiminn.

„Ég var í venjulegu sumarfrí. Lengst af á ævi minni hef ég ekki átt pening til að fara í frí eða ekki haft tíma," sagði Klopp.
Athugasemdir
banner
banner
banner