Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 11. febrúar 2016 15:10
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Björn Bergmann: Hélt að stjórinn væri að djóka í mér
Meiðslalaus og kominn í liðið hjá Wolves
Björn í leik með Wolves.
Björn í leik með Wolves.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Björn Bergmann Sigurðarson er kominn á fulla ferð með Wolves í Championship deildinni eftir tvö erfið ár þar sem hann var mikið frá keppni vegna meiðsla. Björn Bergmann kom til Wolves árið 2012 en árið 2014 var hann á láni hjá Molde þar sem hann varð norskur meistari og í fyrra fór hann til FC Kaupmannahöfn á láni.

„Þetta er búið að vera skemmtilegt. Það kom mér á óvart að komast í liðið þegar ég kom til baka á láni. Ég hélt að ég myndi koma til baka og vera sendur eitthvað annað aftur. Ég fékk hins vegar sénsinn og það hefur verið frábært," sagði Björn Bergmann við Fótbolta.net í dag.

Hélt að stjórinn væri að djóka
Keith Jackett, stjóri Wolves, hefur gefið Birni sénsinn í undanförnum leikjum. Björn hefur nýtt það vel og um síðustu helgi var hann maður leiksins gegn Reading. Hann var þó ekki bjartsýnn á spiltíma þegar hann kom aftur til Wolves frá Danmörku síðastliðið sumar.

„Ég vissi að ég ætti bara eitt tímabil eftir af samningnum og maður hugsaði 'hvað er ég að gera hérna?' Ég fékk ekkert að spila áður hjá þessum stjóra (Jackett). Þetta hefur síðan farið á besta veg," sagði Björn.

„Hann sagði við mig að ég myndi fá séns ef ég gæti sannað mig. Hann hafði sagt þetta áður og aldrei gefið mér sénsinn svo ég hugsaði 'hann er bara eitthvað að djóka í mér.' Síðan gaf hann mér sénsinn og þetta hefur gengið mjög vel. Hann er búinn að vera rosalega fínn."

Bakmeiðslin úr sögunni
Björn hefur verið að glíma við meiðsli í baki undanfarin ár og hann fór í aðgerð af þeim sökum síðastliðið sumar. „Ég finn ekki fyrir þessu lengur og það er þvílíkur léttir," sagði Björn glaður í bragði..

„Ég fékk þetta í byrjun tímabils hjá Molde og var allan tímann að drepast í bakinu. Þetta var eins hjá Kaupmannahöfn en eftir það þá gekk þetta ekki lengur og ég fór í aðgerð. Þegar ég hugsa til baka þá sé ég eftir því að hafa ekki farið í aðgerð um leið."

Stuðningsmenn Wolves hafa verið mjög ánægðir með frammistöðu Björns að undanförnu. „Þeir hafa alltaf verið ánægðir með mig. Þegar ég var annars staðar þá voru þeir að Tweeta til mín. Þeir voru ekkert smá ánægðir þegar ég fékk að spila og stóð mig vel. Það er frábært að sjá hvað þeir eru ánægðir."

Ekki farinn að skoða framtíðina
Björn hefur spilað fjóra leiki með Wolves að undanförnu en þrátt fyrir góða frammistöðu er hann ennþá að bíða eftir fyrsta markinu.

„Ég hef aldrei skorað neitt mikið svo þetta kemur mér sjálfum ekkert á óvart en framherji verður að skora allavega nokkur mörk. Ég var að tala við aðstoðarþjálfarann áðan og hann sagði við mig að mörkin muni koma ef að ég stend mig svona vel áfram. Hann sagði að það verði miklu erfiðara að skora ef ég pæli of mikið í því. Ég ætla að halda áfram að standa mig eins vel og ég get og þá koma vonandi mörkin," sagði Björn brattur.

Björn verður samningslaus í sumar en hann segist ekki vera byrjaður í neinum viðræðum við Wolves um nýjan samning.

„Ég sagði við þjálfarann um daginn að ég vildi fá að spila og halda mér heilum. Það sem gerist eftir tímabilið það bara gerist. Ég held að ég græði ekkert á að pæla í þessu. Ég geri mitt besta og ef ég stend mig vel þá verður mikið opið," sagði Björn að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Björn Bergmann um landsliðið: Alltaf möguleiki
Athugasemdir
banner
banner
banner