Gríntilboð í Ederson - Trafford gæti verið á heimleið - Simons í ensku úrvalsdeildina?
   sun 11. maí 2014 11:46
Fótbolti.net
Umfjöllun: Húsavíkurstig gegn tíu Sandgerðingum
Ingólfur Örn skoraði tvö og jafnaði fyrir Völsung í viðbótartíma.
Ingólfur Örn skoraði tvö og jafnaði fyrir Völsung í viðbótartíma.
Mynd: Fótbolti.net - Helgi Óttarr Hafsteinsson
Sonur Sigga Hall skoraði í gær.
Sonur Sigga Hall skoraði í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Reynir S. 2 - 2 Völsungur
1-0 Ólafur Árni Hall ('20)
2-0 Rúben Filipe Vasques Narciso ('42, víti)
2-1 Ingólfur Örn Kristjánsson ('63)
2-2 Ingólfur Örn Kristjánsson ('95)
Rautt spjald: Magnús Ríkharðsson (Reynir) ('29)

Það voru fínar aðstæður þegar Reynir tók á móti Völsungi í 2. deildinni, sól og blíða og spilað á flottu grasi á æfingasvæði Sandgerðinga. Reynismenn mættu ákveðnir til leiks og áttu tvö ágæt færi á fyrstu mínútunum. Fyrsta markið kom síðan á 20. mínútu þegar Ólafur Árni Hall, sonur kokksins Sigga Hall, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Reyni þegar hann afgreiddi boltann snyrtilega í markið hjá gestunum.

Tíu mínutum síðar voru heimamenn orðnir manni færri. Magnús Ríkharðsson var þá sendur í sturtu fyrir að ýta við einum Húsvíkinganna eftir að sá síðarnefndi reyndi að koma í veg fyrir að Reynismenn tækju aukaspyrnu á miðjum vellinum. Agaleysi hjá Sandgerðingnum unga að láta fiska sig svona af leikvelli.

Gestirnir náðu illa að nýta sér að vera einum leikmanni fleiri og í stað þess að jafna fóru þeir tveimur mörkum undir í leikhléð. Ruben Narciso skoraði örugglega úr víti á 42. mínútu sem Reynismenn fengu eftir klaufalegt brot gestanna.

Í seinni hálfleik voru Völsungar meira með boltann og náðu að minnka muninn á 63. mínútu. Þá kom fyrirgjöf fyrir mark Reynis sem virtist hættulítil en Ingólfur Örn Kristjánsson nýtti sér misskilning milli markvarðar og varnar og skallaði knöttinn í netið.

Húsvíkingarnir héldu áfram að sækja það sem eftir lifði leiks og var þeirra besti maður, Bjarki Baldvinsson, príumsmótorinn í flestum aðgerðum. Illa gekk þó hjá gestunum að finna leiðina að marki Sandgerðinga og allt virtist stefna í Reynissigur.

Það var á endanum undarlegt tímaskyn Jóhanns Atla Hafliðasonar dómara sem bjargaði stigi fyrir gestina. Honum tókst að bæta rúmum fimm mínútum við háfleik sem var nánst aldrei stoppaður og Ingólfur Örn Kristjánsson jafnaði metinn með sínu öðru marki með síðustu spyrnu leiksins.

Reynismenn voru eðlilega svektir með að ná ekki að halda öllum þremur stigunum en geta einungis kennt sínu eigin einbeitingarleysi um. Gestirnir fögnuðu hins vegar eins og heimsmeistarar stiginu sem þeir tóku með sér í Euróvisiongleði kvöldsins. Mikill vorbragur var á báðum liðum sem og dómara leiksins og ljóst að allir aðilar hafa töluvert svigrúm til að taka framförum í sumar.
Athugasemdir
banner