fös 12. janúar 2018 16:00
Elvar Geir Magnússon
Heimir Hallgríms: Á allan hátt erfiðari leikur á sunnudag
Icelandair
Gelora Bung Karno leikvangurinn.
Gelora Bung Karno leikvangurinn.
Mynd: Twitter
Mynd: Twitter
Íslenski landsliðshópurinn leikur seinni leik sinn í Indónesíu á sunnudaginn. Sá leikur fer fram í Jakarta, höfuðborg landsins, og verður á hinum risastóra Gelora Bung Karno leikvangi.

Leikurinn verður klukkan 12:00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á RÚV 2 en mikill áhugi er á leiknum í Indónesíu.

Ísland vann sérstakt úrvalslið indónesísku deildarinnar 6-0 í gær en mætir öflugra liði á sunnudaginn.

„Það var margt skrítið við fyrri leikinn. Það var engin samhæfing og enginn kúltúr í leikstíl hjá því liði. Við erum að fara að spila við landslið núna sem hefur æft saman og veit nákvæmlega hvernig leikstíl það vill leika. Það eru betri einstaklingar í því liði," segir Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari.

Gelora Bung Karno leikvangurinn hefur gengið í gegnum miklar endurbætur. Áhorfendametið á vellinum er 150 þúsund áhorfendur en nú eru ekki lengur stæði á honum.

„Þetta er opnunarleikur á einum stærsta velli í heimi. Hann tekur núna 76 þúsund í sæti og líklega verður uppselt á leikinn eftir okkar heimildum. Þetta verður allt öðruvísi leikur, allt öðruvísi stærðargráða á leik. Stemningin verður meiri og á allan hátt erfiðari fyrir okkur. Hinsvegar ætlum við að vinna hann eins og hinn."

Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson mun ekki vera með í leiknum á sunnudag en hann fékk aðeins leyfi frá félagsliði sínu, Bröndby í Danmörku, til að taka þátt í fyrri leiknum.

Hér að neðan má sjá viðtal við Heimi sem tekið var eftir leikinn í gær.

„Auðvitað voru mótherjarnir í dag bara slakir," sagði Heimir. „Við viljum ekki spila svona leiki. Það á enginn leikur að fara 6-0. Vonandi mætum við sterkari leikmönnum og sterkara liði á sunnudaginn. Við vitum það að aðstæður verða mun betri."
Heimir Hallgríms: Leikurinn hefði ekki átt að fara fram
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner