fös 12. janúar 2018 08:30
Magnús Már Einarsson
Viktor Helgi í ÍA (Staðfest)
Þórður framlengir
Frá undirskrift.
Frá undirskrift.
Mynd: ÍA
Þórður Þorsteinn Þórðarson.
Þórður Þorsteinn Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
ÍA hefur fengið miðjumanninn Viktor Helga Benediktsson í sínar raðir frá FH. Viktor hefur skrifað undir þriggja ára samning hjá ÍA en hann ætlar að hjálpa Skagamönnum í baráttunni í Inkasso-deildinni í sumar.

Viktor Helgi er 19 ára gamall en hann skoraði þrjú mörk í nítján leikjum á láni hjá HK á síðasta tímabili.

HK endaði í 4. sæti í Inkasso-deildinni í fyrra en Jóhannes Karl Guðjónsson var þá þjálfari liðsins. Jóhannes Karl tók við ÍA í haust og hann hefur nú ákveðið að fá Viktor með í hópinn hjá ÍA.

„Það er mikill heiður að fá að spila fyrir klúbb með jafn mikla sögu og ÍA. Þetta var í raun aldrei nein spurning eftir að Jói Kalli hringdi í mig og sagðist vilja sjá mig í gulu," sagði Viktor í viðtali á heimasíðu ÍA.

„Ég átti frábært ár hjá HK 2017 undir hans stjórn og ég veit að það verður frábært að fá að vinna með honum aftur. Það skemmir svo alls ekki fyrir að hafa Sigga Jóns við hlið hans. Það eru rosalega spennandi tímar framundan hér á Skaganum og get ég ekki beðið eftir því að byrja. Áfram ÍA!.”

Jóhannes Karl fagnar einnig komu Viktors Helga til ÍA. „Ég er virkilega ánægður með að hafa fengið Viktor Helga til liðs við okkur á Skaganum. Viktor passar vel inní framtíðarmarkmið okkar sem eru að búa til öfluga liðsheild og koma Skaganum aftur í efstu deild," sagði Jóhannes Karl.

Þá hefur kantmaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson framlengt samning sinn við ÍA út árið 2020. Þórður er 22 ára gamall kantmaður en hann hefur skorað 19 mörk í 127 leikjum með ÍA.

„Ég er gríðarlega ánægður með að gera nýjan samning við mitt uppeldisfélag, enda er hjartað mitt hjá ÍA. Markmið næsta sumars er að fara aftur upp, það er ekkert annað sem kemur til greina," sagði Þórður eftir undirskrift.
Athugasemdir
banner
banner
banner