banner
   fös 12. janúar 2018 16:30
Elvar Geir Magnússon
Zidane gerði nýjan samning en segir að hann hafi enga þýðingu
Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane.
Mynd: Getty Images
Zinedine Zidane hefur skrifað undir nýjan samning við Real Madrid til 2020 en viðurkennir að samningurinn tryggi honum ekki starfsöryggi hjá félaginu.

Real Madrid hefur ekki verið sannfærandi í La Liga, Cristiano Ronaldo er aðeins kominn með fjögur deildarmörk og Madrídarliðið er sextán stigum frá toppliði Barcelona.

Zidane vann spænska titilinn og Meistaradeildina í fyrra en illa hefur gengið á þessu tímabili.

„Ég horfi á næsta leik, þetta tímabil. Ég get ekki verið að pæla tvö eða þrjú ár fram í tímann því þrátt fyrir að ég sé með þennan samning þá hefur það enga þýðingu," segir Zidane.

Flestir sparkspekingar eru á því að Real Madrid hafi fallið illa á prófinu þegar kom að því að styrkja liðið síðasta sumar.

Út fóru Alvaro Morata, James Rodriguez, Danilo og Pepe en inn komu tveir ungir leikmenn, Theo Hernandez og Dani Ceballos. Félagið ætlaði að fá Kylian Mbappe en tapaði þeirri baráttu fyrir PSG og þá var ekki neitt plan B.

Áhugaverð staðreynd er að af allir leikir Real Madrid og Barcelona í La Liga á tímabilinu hefðu verið flautaðir af í hálfleik væri Madrídarliðið á toppnum. Liðið hefur tapað sjö stigum í seinni hálfleik á meðan Barcelona hefur grætt tólf stig.

Þreytumerki eru á Marcelo, Casemiro, Luka Modric og Toni Kroos en allir þessir leikmenn blómstruðu á fyrstu 18 mánuðunum undir stjórn Zidane. Meiðsli hafa einnig haft sín áhrif og BBC tríóið Ronaldo, Gareth Bale og Karim Benzema hefur ekki spilað neitt saman á tímabilinu.

Real Madrid leikur gegn PSG í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ef Spánarmeistararnir falla þar úr leik verður fróðlegt að sjá hvernig framtíðin verður hjá Zidane, Ronaldo og fleirum.
Athugasemdir
banner
banner
banner