Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 12. júní 2017 16:36
Þórður Már Sigfússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ef þú bara vissir ...
Þórður Már Sigfússon
Þórður Már Sigfússon
Íslenskir stuðningsmenn.
Íslenskir stuðningsmenn.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Lars og Heimir.
Lars og Heimir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég velti fyrir mér ef ég hefði gerst svo góður að smíða tímavél og haldið, eftir lokaflautið í gærkvöldi, til fundar við sjálfan mig miðvikudagskvöldið 17. október 2007.

Ég man vel eftir því kvöldi þar sem ég stóð dofinn fyrir framan sjónvarpsskjáinn eftir að hafa horft á Íslenska landsliðið tapa 0-3 fyrir Liechtenstein í beinni útsendingu á Sýn. Undankeppnin hafði verið hrein hörmung en Íslenska landsliðið hafði tapað 2-4 fyrir Lettum á Laugardalsvelli fjórum dögum áður.

Mér var mikið niðri fyrir enda stoltur stuðningsmaður íslenska landsliðsins.

Botninum var náð en ég myndi segja við þann svekkta kauða í þann mund sem hann slökkvir á sjónvarpinu.

„Brostu, því í nánd eru uppgangstímar allra uppgangstíma í íslenskri knattspyrnu. Ef þú bara vissir hversu margar stórþjóðir eiga eftir að liggja í valnum, ef þú bara vissir hvað mun eiga sér stað þann 27. júní 2016. Ef þú bara vissir um Lars Lagerback, Heimi Hallgríms, Gylfa, Aron, Hannes og alla hina, kvöldið í Bern, þrennuna hans Jóa, umspilið gegn Króatíu, tvennuna hans Gylfa gegn Oranje, markið hans Kolla gegn Tékkum, Amsterdam 2015, fallegasta markalausa jafntefli allra tíma í rigningunni í Laugardalnum, víkingaklappið, EM 2016, Tólfuna, unglambið Eið Smára, Ronaldopirringinn, Gumma Ben og markið hans Arnórs Trausta, lokamínúturnar gegn Finnlandi, lokamínúturnar gegn Króatíu. Ef þú bara vissir að í júní 2017 mun Ísland hafa leikið 14 landsleiki í röð án taps á Laugardalsvellinum. Ef þú bara vissir hvar við verðum staddir á FIFA-listanum. Ef þú bara vissir … ”

Ég veit satt að segja ekki hvoru yngra sjálfið myndi trúa. Þeirri staðreynd að eldra sjálfið hafi slysast til að smíða tímavél eða rausinu um að Ísland eigi eftir að sigra stórþjóðir í hrönnum.

Dapri kauðinn gerir sér þó fljótlega grein fyrir því að hann verði að taka eldra sjálfið trúanlegt og að hann standi gegnt eldri útgáfu af sjálfum sér á stofugólfinu.

Andlit hans lýsist skyndilega upp og tilfinning eftirvæntingar gagntekur hann.

Þegar þeir kumpánar hafa ræðst við í stutta stund, andvarpar eldra sjálfið og segir lágt. „Ég má ekki greina frá of miklum smáatriðum til að breyta ekki framtíðinni en eitt verðurðu að muna góði.”

„Hvað er það?” spyr yngra sjálfið.

„Þú verður að vera vakandi klukkan fjögur aðfaranótt mánudagsins 29. október 2013.”

„Af hverju? Hvað gerist þá?”

„Það kemur í ljós. Meira get ég ekki sagt,” svarar eldra sjálfið glottandi og stígur í þann mund aftur upp í tímavélina.

„Bíddu!!” kallar yngra sjálfið þegar hurðin á farartækinu er við það að lokast.

„Hvað er víkingaklappið?”

Hurðin lokast en rétt áður en tímavélin hverfur sjónum hans, berast þaðan tveir þungir dynkir.

Ef þú bara vissir.

Áfram Ísland.
Athugasemdir
banner