Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 12. október 2015 13:36
Alexander Freyr Tamimi
skrifar frá Konya
Ekki hægt að láta hryðjuverkaárásina hafa áhrif
Icelandair
Lars Lagerback ræðir við Heimi Hallgrímsson á æfingu í dag.
Lars Lagerback ræðir við Heimi Hallgrímsson á æfingu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Ingi býr í tyrknesku höfuðborginni Ankara.
Ólafur Ingi býr í tyrknesku höfuðborginni Ankara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjóðarsorg ríkir í Tyrklandi þessa dagana þar sem Ísland mun mæta heimamönnum í lokaleiknum í undankeppni EM 2016 annað kvöld.

Mannskæðasta hryðjuverkið í sögu Tyrklands var framið í höfuðborginni Ankara á dögunum þar sem um 100 manns létu lífið og um 250 manns særðust. Ríkir því þriggja daga þjóðarsorg í landinu.

Ísland mætir Tyrklandi í Konya klukkan 18:45 að íslenskum tíma annað kvöld og hefur Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrklands, sagt að hans menn ætli að sækja sér sigur til heiðurs fórnarlambanna og til að sameina tyrknesku þjóðina.

Lars Lagerback, landsliðsþjálfari Íslands, ber fulla virðingu fyrir málstað Tyrkja en segir samt sem áður að Íslendingar geti einungis einblínt á að vinna leikinn.

„Ég get skilið það og ég ber auðvitað virðingu fyrir því. Ég hef heyrt að þeir muni gera eitthvað fyrir leik og á meðan honum stendur og við virðum það auðveldlega. En þegar kemur að fótboltanum munum við auðvitað gera allt sem við getum til að vinna leikinn. Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga góðar 90 mínútur og ná úrslitum," sagði Lagerback.

Ólafur Ingi Skúlason, miðjumaður íslenska landsliðsins, tekur í sama streng. Hann spilar með Genclerbirligi í tyrknesku úrvalsdeildinni og býr í höfuðborginni Ankara.

„Ég skil það vel að þeir reyni að nota þetta á jákvæðan hátt og reyni að lyfta fólki. Þetta er hræðilegur atburður og ég skil það bara að þeir vilji að sjálfsögðu gefa fólkinu til baka og lyfta því upp eftir þessa hluti,"  sagði Ólafur Ingi í viðtali við Fótbolta.net sem birtist í heild sinni á morgun.

En við verðum bara að spila okkar leik og ekki pæla of mikið í því sem þeir eru að pæla. Öll pressan er á þeim og ef við skilum þessu frá okkur eins og við getum, þá vinnum við þennan leik."

Ísland mun með sigri tryggja sér toppsætið í A-riðli, en liðið er með eins stigs forskot á Tékkland. Tyrkland þarf að fá stig til að tryggja sér 3. sætið í riðlinum og þar með umspil um sæti í lokakeppninni, að því gefnu að Holland vinni Tékkland.
Athugasemdir
banner
banner