mán 12. október 2015 09:43
Alexander Freyr Tamimi
skrifar frá Konya
Heimir: Katastrófa að reyna að spila eins og Barcelona
Icelandair
Heimir vill ekki spila neinn Barcelona bolta. Hér er hann á æfingu Íslands í morgun.
Heimir vill ekki spila neinn Barcelona bolta. Hér er hann á æfingu Íslands í morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Konya í Tyrklandi rétt í þessu ásamt fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni.

Annað kvöld mætast Ísland og Tyrkland á Torku Arena í Konya í lokaumferð undankeppni EM 2016. Um algeran úrslitaleik er að ræða fyrir Tyrki á meðan Ísland hefur þegar tryggt sér sæti í lokakeppninni í Frakklandi.

„Þeir hafa verið að spila síðustu leiki mjög vel og það hefur verið gaman að horfa á leiki þeirra á móti Hollandi og Tékklandi. Þeir eru með marga góða tekníska leikmenn og þeir hafa þróast í þá átt að halda meira boltanum og búa til meira á sóknarþriðjungi. Þetta verður sennilega einn erfiðasti leikur varnarlega í riðlinum fyrir okkur," sagði Heimir á blaðamannafundinum í dag.

Heimir segir að menn hafi vel farið yfir það sem fór úrskeiðis í seinasta leik gegn Lettlandi á dögunum. Þar leiddi Ísland 2-0 í hálfleik en missti það niður í 2-2 jafntefli.

„Við gáfum þeim fullt af svæðum í þessum seinni hálfleik, þegar við töpuðum boltanum vorum við ekki í nægilega góðri stöðu. Þeir gátu refsað okkur og það var þessi "balance" sem datt út. Þetta var ólíkt okkur, við vorum ekki beinskeittir heldur vorum að dúlla okkur með boltann," sagði Heimir.

„Við vorum að gera margt sem við vorum ekki vanir að gera, og gegn liðum eins og Tyrklandi er það katastrófa að reyna að spila eins og Barcelona. Þeir refsa hratt, við verðum að vera beinskeittir og halda áfram að gera það sem við höfum gert vel."

Athugasemdir
banner
banner
banner