Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 12. október 2015 15:41
Alexander Freyr Tamimi
skrifar frá Konya
Þjálfari Tyrklands: Ísland á þetta skilið
Icelandair
Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrklands, var sorgmæddur er hann ræddi hryðjuverkaárásina í Ankara.
Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrklands, var sorgmæddur er hann ræddi hryðjuverkaárásina í Ankara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fatih Terim, þjálfari Tyrklands, byrjaði blaðamannafund sinn í Konya í dag á því að óska Íslandi til hamingju með að vera komið í lokakeppni EM 2016.

Ísland heimsækir Tyrkland á Torku Arena annað kvöld klukkan 18:45 að íslenskum tíma, en þetta er lokaleikur liðanna í áðurnefndri undankeppni. Segir Terim að Ísland eigi toppsæti riðilsins skilið.

„Ég vil byrja á að óska Íslandi til hamingju með að komast á sitt fyrsta Evrópumót og ég vil óska þjálfurunum og kollegum mínum Lars Lagerback og Heimi Hallgrímssyni og allri íslensku þjóðinni fyrir þennan árangur,“ sagði Terim á blaðamannafundinum.

„Liðið hefur verið allsráðandi í þessum riðli og betri en Tékkland, og vann okkur 3-0 í fyrri leiknum. Þeir eru enn efstir í riðlinum og eiga sína velgengni skilið.“

Terim lét þetta nægja hvað íslenska liðið varðaði og svaraði spurningu blaðamanns um hryðjuverkaárásina í Ankara á dögunum sem kostaði 100 manns lífið.

Tyrkir hafa lýst yfir þjóðarsorg vegna málsins, sem var Terim augljóslega þungbært.

„Við erum auðvitað í erfiðri aðstöðu. Landsliðið er hluti af þjóðinni og við gerum okkar besta til að senda bestu skilaboð sem við getum frá fótboltavellinum. Að heyra svona hluti og sjá svona gerast er auðvitað hræðilegt,“ sagði hann.

„Þegar þú heyrir í fréttum að níu ára barn sé drepið eða að þriggja og hálfs árs barn fái byssukúlu í höfuðið, það er hræðilegt og mann verkjar í hjartað við að hugsa um það. Það er sagt að „lífið haldi áfram“ en ég þoli ekki það máltæki, fólk á að hafa samúð með öðrum."

„Landsliðið er eining sem þjappar tyrkneska fólkinu saman. Frá því að við fæðumst sjáum við hálfmánann og stjörnuna í fánanum og ég vil ekki að neitt taki það burtu frá okkur. Það er ekki gott að tala um svona hluti á fótbolta blaðamannafundi, en aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað,“
sagði Terim.
Athugasemdir
banner
banner
banner