mán 12. október 2015 10:49
Magnús Már Einarsson
Þorsteinn Már: Hlakka til að fá stórt hlutverk
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
„Ég var alltaf mjög spenntur fyrir þesu og ég er mjög sáttur að þetta hafi gengið upp," sagði Þorsteinn Már Ragnarsson við Fótbolta.net í dag eftir að hann gekk til liðs við Víking Ólafsvík.

Samningur Þorsteins við KR var að renna út og nokkur félög höfðu áhuga á að fá hann í sínar raðir. Þorsteinn ákvað hins vegar að semja við sitt gamla félag Víking Ólafsvík.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila með mínu liði í Pepsi-deildinni," sagði Þorsteinn sem var í KR þegar Ólafsvíkingar voru í Pepsi-deildinni 2013.

„Það er mjög spennandi að spila fyrir mitt lið og mína fjölskyldu fyrir vestan og ég hlakka til að fá stórt hlutverk innan sem utan vallar. Stjórnin og þjálfarinn eru reynslunni ríkari síðan síðast og ég held að við getum gert betur núna," sagði Þorsteinn en Ólsarar féllu úr deildinni 2013.

Í júlí síðastliðnum var Þorsteinn sterklega orðaður við brottför frá KR en Breiðablik og Valur vildu fá hann í sínar raðir þá.

„Í júlí í sumar ákváðum við að ég myndi halda áfram hjá KR og síðan myndi ég fá að fara núna. Það var allt í góðu," sagði Þorsteinn sem varð tvívegis bikarmeistari með KR og einu sinni Íslandsmeistari.

„Það hafa verið hæðir og lægðir en ég er ánægður með tímann þarna. Ég er búinn að eiga fína tíma," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir
banner
banner