Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 12. október 2017 14:00
Magnús Már Einarsson
Stefán Logi: Hungrið er jafnvel meira en oft áður
Stefán Logi Magnússon.
Stefán Logi Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég skil sáttur við mitt félag," sagði Stefán Logi Magnússon, markvörður KR, við Fótbolta.net í dag en hann er á förum frá félaginu þegar samningur hans rennur út í næstu viku.

KR ætlar að byrja undirbúningstímabilið með Beiti Ólafsson og Sindra Snæ Jensson. Beitir tók markvarðarstöðuna af Stefáni Loga hjá KR í sumar.

Hinn 37 ára gamli Stefán Logi ætlar að halda áfram í fótbolta og skoðar nú næstu skref.

„Ég hef sagt við alla að ég vilji aðeins hugsa mig um. Ég tek ákvörðun áður en október er liðinn líklegast. Ef ég ætla að gera eitthvað þá vil ég vera með í því frá byrjun." sagði Stefán Logi.

„Hungrið er jafnvel meira en oft áður. Svo lengi sem það er til staðar og getan er til staðar þá ætla ég að njóta þess að taka þátt í þessari frábæru íþrótt."

„Skrokkurinn er í toppstandi. Ég held að ég hugsi betur um mig en margir á mínum aldri. Það er kannski ástæðan fyrir því að maður er búinn að vera í þessu í einhver tuttugu ár. Ég hef engar áhyggjur af mér ef ég fæ að gera þetta á mínum forsendum. Maður getur kannski ekki æft jafnmikinn fótbolta og 19 ára guttarnir en maður æfir bara annað til að vera í toppstandi," sagði Stefán Logi.

Stefán Logi kom til KR árið 2007 en hann lék með Lilleström í Noregi frá 2009 til 2013 áður en hann fór aftur í Vesturbæinn. Stefán á tíu leiki að baki með íslenska landsliðinu.
Athugasemdir
banner