þri 13. október 2015 19:46
Magnús Már Einarsson
Eyjólfur: Munum varla hvenær við töpuðum síðast
Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vorum að tala um það, við munum varla hvenær við töpuðum síðast. Það er mjög langt síðan síðast," sagði Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21 árs landsliðsins við Fótbolta.net í kvöld eftir markalaust jafntefli gegn Skotum í undankeppni EM.

U21 árs landsliðið er með þrjá sigra og tvö jafntefli eftir fimm leiki í undankeppninni og á toppi riðilsins með ellefu stig. Eyjólfur var sáttur með stig á útivelli í dag.

„Þetta var fínn leikur hjá íslenska liðinu og ég er mjög ánægður með strákana. Við vorum fljótur að skipta úr vörn í sókn og öfugt. Þeir fengu tvö færi eftir klafs sem Frederik (Schram) varði mjög vel. Við fengum síðan þrjú dauðafæri þar sem við áttum að setja hann."

Íslenska liðið sigraði Úkraínu 1-0 á útivelli í síðustu viku og hélt því hreinu í báðum leikjunum. „Það er stórkostlegt. Menn eru vinnusamir og fljótir að detta niður og loka svæðunum Það er ekki auðvelt að komast í gegnum okkur. Þegar við sprengjum upp völlinn erum við stórhættulegir líka."

Næsti leikur Íslands er gegn Makedóníu í mars og næsti leikur þar á eftir er ekki fyrr en í september. Eyjólfur segir að möguleiki sé á að liðið fái æfingaleiki inn á milli en hann er ánægður með þróunina á liðinu.

„Maður finnur að liðið er ennþá að vaxa og verða öflugra og sterkara. Þannig hefur það verið með öll landsliðin hjá okkur," sagði Eyjólfur en íslenska liðið stefnir á að vinna riðilinn og tryggja sér sæti í lokakeppni EM 2017.

„Það er nóg eftir og við þurfum bara að taka næsta leik. Okkar markmið er að reyna að vinna riðilinn. Við reiknum með að allir taki stig af öllum. Við vorum að vonast til að Úkraína myndi hanga á þessu og gera jafntefli við Frakka í dag en Frakkarnir skoruðu sigurmark í lokin þar. Þetta verður spennandi áfram,"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner