banner
   mið 13. desember 2017 17:47
Elvar Geir Magnússon
Myndi ekki trufla 9 af hverjum 10 á Íslandi ef landsliðsmaður kæmi úr skápnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Níu af tíu íslenskum fótboltaáhugamönnum yrði sama þó landsliðsmaður í fótbolta kæmi úr skápnum sem hommi eða tvíkynhneigður.

Þetta er samkvæmt könnun sem Forza Football og samtökin Stonewall létu framkvæma. 50 þúsund stuðningsmenn í 38 löndum voru spurðir álits.

Í heildina litið voru það þrír af hverjum fjórum sem svöruðu sem sögðu að það myndi ekki trufla þá ef landsliðsmaður þjóðar sinnar kæmi úr skápnum.

Ísland og Írland eru þau lönd þar sem umburðarlyndið gagnvart samkynhneigðum og tvíkynhneigðum er mest meðal fótboltaáhugafólks. Á hinum endanum eru Sameinaða arabíska furstadæmið, Sádi-Arabía og Egyptaland þar sem aðeins einn af hverjum tíu svaraði já.

Í Rússlandi, þar sem HM verður haldið á næsta ári, eru 50% fótboltaáhugafólks sem segir að það myndi ekki trufla sig ef landsliðsmaður Rússlands kæmi út úr skápnum. Í Katar þar sem HM verður 2022 er hlutfallið aðeins 1/7.

Ruth Hunt, framkvæmdastjóri Stonewall, segir að umburðarlyndið gagnvar samkynhneigðum í fótboltanum sé að aukast en enn sé langt í land.

„Við trúum því að komandi heimsmeistaramót séu tækifæri til að vekja athygli á réttindabaráttu LGBT fólks (samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks) í löndum eins og Rússlandi og Katar. Vonandi verður jákvæð breyting þarna," segir Hunt.

Oft er talað um samkynhneigð sem bleika fílinn í karlafótbolta en enginn atvinnu fótboltamaður er opinberlega samkynhneigður.
Athugasemdir
banner
banner
banner