Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 14. janúar 2018 17:54
Arnar Geir Halldórsson
England: Liverpool fyrsta liðið til að vinna Man City
Óstöðvandi
Óstöðvandi
Mynd: Getty Images
Firmino fór afskaplega illa með Stones
Firmino fór afskaplega illa með Stones
Mynd: Getty Images
Gundogan lagði upp og skoraði
Gundogan lagði upp og skoraði
Mynd: Getty Images
Liverpool 4 - 3 Manchester City
1-0 Alex Oxlade-Chamberlain ('9 )
1-1 Leroy Sane ('41 )
2-1 Roberto Firmino ('59 )
3-1 Sadio Mane ('62 )
4-1 Mohamed Salah ('68 )
4-2 Bernardo Silva ('84 )
4-3 Ilkay Gundogan (´90 )

Topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Manchester City, heimsótti Liverpool á Anfield í síðari leik dagsins í enska boltanum. City burstaði fyrri leik liðanna og var fyrir leikinn taplaust á toppi deildarinnar.

Liverpool byrjaði leikinn betur því Alex Oxlade-Chamberlain kom heimamönnum yfir snemma leiks með föstu skoti utan teigs.

Mohamed Salah komst nálægt því að tvöfalda forystu Liverpool skömmu síðar en Egyptinn náði ekki að koma skoti á markið eftir góðan sprett.

Heimamenn héldu forystunni allt þar til á 40.mínútu þegar Þjóðverjinn Leroy Sane fann leið framhjá landa sínum, Loris Karius sem kom engum vörnum við föstu skoti Sane í nærhornið.

Staðan í leikhléi því jöfn.

Heimamenn voru miklu öflugri í upphafi síðari hálfleiks og það skilaði marki eftir tæplega klukkutíma leik þegar Roberto Firmino tók John Stones í bakaríið og kláraði færið sitt af stakri snilld.

Nokkrum sekúndum síðar var Liverpool aftur komið í stórsókn. Fyrst átti Sadio Mane hörkuskot í stöngina en honum brást ekki bogalistin tæpri mínútu síðar þegar hann þrumaði boltanum í netið eftir frábæran undirbúning Salah og staðan skyndilega orðin 3-1 fyrir heimamönnum.

Toppliðið átti engin svör við sóknarleik Liverpool og Salah kórónaði frábæra frammistöðu sína með snilldarmarki á 67.mínútu.

Bernardo Silva kom inn af bekknum hjá gestunum og náði að klóra í bakkann á 83.mínútu og bjó til smá spennu fyrir lokamínúturnar.

Ilkay Gundogan minnkaði svo muninn enn frekar á lokamínútu venjulegs leiktíma en nær komst toppliðið ekki og fyrsta tap Man City í ensku úrvalsdeildinni í vetur staðreynd.

Man City eftir sem áður í efsta sæti deildarinnar en Liverpool situr nú við hlið Man Utd og Chelsea í 2-4.sæti deildarinnar. Öll liðin fimmtán stigum á eftir City.
Athugasemdir
banner
banner
banner