Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 14. janúar 2018 18:21
Arnar Geir Halldórsson
Guardiola: Til hamingju Liverpool
Pep Guardiola
Pep Guardiola
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Man City, hrósaði Liverpool eftir að hafa séð lið sitt tapa í fyrsta sinn í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Ég óska Liverpool til hamingju með sigurinn. Við vorum með leikinn í okkar höndum þegar staðan var 1-1 en nýttum ekki tækifærin okkar og skyndilega var staðan orðin 4-1. Þú verður að halda haus þegar þú færð á þig mark en við vorum ekki nógu sterkir í þeirri stöðu," segir Guardiola sem ætlar ekki að staldra lengi við leik dagsins.

„Við töpuðum þessum leik og höfum nú viku til að jafna okkur og undirbúa okkur fyrir Newcastle leikinn. Þeir skora þrjú mörk á stuttum tíma og það er erfitt að koma til baka eftir það."

„Andstæðingar okkar í dag eiga hrós skilið. Við vissum hversu erfitt það er að spila við lið Jurgen Klopp. Þeir eru mjög kraftmiklir og sérstaklega á Anfield. Við sýndum góða frammistöðu utan við nokkrar mínútur."


Þrátt fyrir tapið er Man City enn með afgerandi forystu á toppi deildarinnar en nágrannar þeirra í Man Utd geta minnkað forystuna niður í tólf stig, sigri þeir Stoke á morgun.

„Þið hafið sagt á hverjum einasta blaðamannafundi undanfarna mánuði að við séum búnir að vinna deildina en ég hef alltaf sagt nei og segi það enn. Við þurfum að verja okkar stöðu leik eftir leik," sagði Guardiola að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner