Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   sun 14. janúar 2018 16:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Heimir: Horfi glaður til baka - Albert á ýmislegt eftir ólært
Icelandair
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson átti stórleik.
Albert Guðmundsson átti stórleik.
Mynd: KSÍ - Óskar Örn Guðbrandsson
„Ég horfi glaður til baka á þetta verkefni, að við skyldum fara í þetta verkefni þó andstæðingurinn og leikirnir hafi ekki verið þeir bestu sem við höfum spilað í janúar.
„Ég horfi glaður til baka á þetta verkefni, að við skyldum fara í þetta verkefni þó andstæðingurinn og leikirnir hafi ekki verið þeir bestu sem við höfum spilað í janúar.
Mynd: KSÍ - Óskar Örn Guðbrandsson
Heimir ræðir hér við Hilmar Árna Halldórsson sem spilaði sína fyrstu landsleiki í Indónesíu.
Heimir ræðir hér við Hilmar Árna Halldórsson sem spilaði sína fyrstu landsleiki í Indónesíu.
Mynd: KSÍ - Óskar Örn Guðbrandsson
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, var hæstánægður þegar fréttamaður Fótbolta.net heyrði í honum talið eftir 4-1 sigur á Indónesíu í vináttulandsleik ytra í dag.

„Þessi leikur var eins og þessir janúarleikir hafa verið hjá okkur í gegnum tíðina," sagði Heimir.

„Við vorum nokkuð skipulagðir í gegnum báða hálfleikina, sérstaklega varnarlega. Í fyrri hálfleiknum gerðu menn samt mikið af tæknifeilum og voru að finna samherja sína illa. Það vantaði tempó í allt sem við vorum að gera," sagði hann enn fremur.

„Það var svolítið skrítið grasið á þessum velli og það dró svolítið úr tempóinu í spilinu. Við vorum ekki sérstaklega ánægðir með fyrri hálfleikinn sóknarlega en varnarlega vorum við að skila okkur vel inn í skipulag og allt í góðu með það."

„Seinni hálfleikurinn var miklu betri. Þar vorum við að spila meira á jörðinni, spila hraðar og skapa okkur fleiri færi. Við erum nokkuð ánægðir með þennan leik. Það er alltaf erfitt að spila þessa janúarleiki, þetta eru leikmenn sem hafa aldrei spilað saman og það tekur tíma fyrir þá að læra inn á það sem við viljum gera. Það er eðlilegt að það sé ekki hátt tempó í þessum leikjum."

Stærsti leikurinn á ævinni hjá mörgum
„Þetta var stór leikur fyrir þessa leikmenn á svo margan hátt; þetta var risastór völlur og það var hörkuflott stemning. Það er heitt hérna og annað, svo þetta er upplifun fyrir marga og örugglega stærsti leikurinn sem margir af okkar leikmönnum hafa spilað á sinni ævi," sagði Heimir í spjalli við Fótbolta.net.

„Það er margt í þessu sem fer í reynslubankann. Við höfum átt góða níu daga saman í Indónesíu þar sem við höfum kynnst þessum strákum innan sem utan vallar. Það er líka stór þáttur í þessum janúarverkefnum að kynnast mönnum, ekki bara í leik heldur líka utan vallar og hvernig þeir eru í hóp."

„Þetta verkefni mun skila okkur heilmiklu inn í framtíðina og mun hjálpa okkur. Þetta eru fyrstu landsleikir margra leikmanna hérna og þeir voru margir að fá nýliðamerki hjá okkur."

„Þetta mun líka hjálpa U21 landsliðinu sem á ansi marga leikmenn hjá okkur núna," sagði Heimir.

„Ég horfi glaður til baka á þetta verkefni, að við skyldum fara í þetta verkefni þó andstæðingurinn og leikirnir hafi ekki verið þeir bestu sem við höfum spilað í janúar, þá var verkefnið mjög flott."

„Albert á mikla möguleika ef hann heldur rétt á spilunum"
Albert Guðmundsson sýndi það og sannaði fyrir landsmönnum að hann kann sitt hvað í fótbolta. Hann byrjaði á varamannabekknum hjá Íslandi í leiknum en kom inn á þegar 27 mínútur voru liðnar og varð tíundi leikmaðurinn í sögunni sem skorar þrennu fyrir A-landsliðið.

Landsmenn héltu ekki vatni yfir honum á Twitter og var honum hrósað í hástert. Vildu margir meina að hann væri að bóka sæti til Rússlands með þessari frammistöðu. Heimir segir að hann hafi alls ekki verið að skemma möguleika sína í þessari ferð.

„Það er bara undir honum komið (hversu langt hann getur náð). Hann hefur fjölmarga einstaklingshæfileika sem geta komið öllum liðum til góða. Hann á líka ýmislegt eftir ólært."

„Það er bara hans að segja til um það hversu langt hann nær. Hann á mikla möguleika ef hann heldur rétt á spilunum."

„Hann var alla vega ekki að skemma fyrir sér, ekki frekar en margir aðrir," sagði Heimir aðspurður að því hvort Albert gerði tilkall í HM-hópinn með þessari frammistöðu. „Við erum ekki bara að horfa á frammistöðu strákanna í leikjunum sjálfum, við erum líka að skoða hvernig þeir eru í hóp. Eins og allir vita er styrkleiki íslenska landsliðsins liðsheildin og við þurfum að velja vel."

„Það eru margir strákar hérna sem stóðu sig vel þó þeir hafi ekki verið að spila mikið eða standa sig vel inn á vellinum. Við fengum fullt af svörum, við þjálfarateymið í þessu verkefni. Fyrir suma er þetta jákvætt, einhverjir eru tilbúnir og við munum fylgjast með þeim næstu mánuðina. Aðrir eru ekki komnir jafnlangt og þurfa aðeins lengri tíma í að verða A-landsliðsmenn.," sagði hann enn fremur.

„Það er það góða við þetta, við þurfum ekki að gera tilraunir í mótsleikjum. Vel gert hjá KSÍ, að leyfa okkur að fara í þessa ferð."

Næsta verkefni
Næsta verkefni er í Bandaríkjunum í mars. Heimir kveðst spenntur að fara í það, en þá verður farið að styttast allverulega í HM í Rússlandi sem hefst um miðjan júnímánuð.

„Það eru stórir leikir í mars og góðir undirbúningsleikir fyrir heimsmeistarakeppnina. Við spilum á frábærum völlum gegn sterkum andstæðingum," sagði Heimir að lokum. „Þetta eru mjög góðir undirbúningsleikir fyrir HM."

Sjá einnig:
Myndband: Siggi Dúlla stýrði Víkingaklappinu í Indónesíu
Athugasemdir
banner
banner
banner