sun 14. janúar 2018 09:30
Ingólfur Stefánsson
Wijnaldum: Skrítið að vera án Coutinho
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gini Wijnaldum miðjumaður Liverpool segir að leikmenn liðsins séu enn að átta sig á því að Phillipe Coutinho sé farinn. Hans verði sárt saknað bæði innan vallar og utan.

Liverpool mætir Manchester City í dag í fyrsta leik liðsins eftir að Brasilíumaðurinn yfirgaf svæðið. Wijnaldum skoraði sigurmark Liverpool í 1-0 sigri í viðureign liðanna á Anfield á síðasta tímabili. Hann mun líklega byrja á miðjunni sem mun reyna að venjast því að spila án Coutinho.

„Ef ég á að vera hreinskilinn er þetta enn frekar skrítið, ég held að við séum ekki alveg búnir að átta okkur á því að hann sé farinn. Við höfum ekki talað mikið um brotthvarf hans því við einbeitum okkur að leiknum. Við viljum alltaf vinna leiki."

Liverpool hefur ekki tapað í síðustu 17 leikjum og Crystal Palace er síðasta liðið til þess að vinna á Anfield. Wijnaldum sem hefur spilað 29 leiki á tímabilinu segir að andstæðingar Liverpool hljóti að vera ánægðir að Coutinho sé farinn.

„Ég held að öll stórliðin í deildinni séu ánægð með að hann sé farinn. Þannig er það bara en öll lið þurfa að takast á við svona aðstæður."

Wijnaldum segir að Coutinho hafi ekki einungis verið einn besti leikmaður liðsins inn á fótboltavellinum heldur líka sem einstaklingur utan vallar.

„Hann var einn af bestu leikmönnum liðsins en sem einstaklingur var hann sennilega sá besti. Hann var ekki hrokafullur og hann hlustaði á liðsfélaga sína og þjálfara. Það var frábært að vinna með honum og þess vegna samgleðjumst við honum að hafa fengið draumatækifærið sitt á sama tíma og við syrgjum brotthvarf hans."

Wijnaldum er einn þeirra miðjumanna sem Liverpool stuðningsmenn munu líta til og fá meira frá eftir brotthvarf Coutinho. Wijnaldum segir þó að hann finni ekki fyrir pressu, hvorki frá stuðningsmönnum né þjálfaranum.

„Klopp er ekki sú týpa sem setur þannig pressu á leikmenn. Allir leikmenn eru ólíkir og það eina sem hann vill er að við gefum 100% í hvern einasta leik."
Athugasemdir
banner
banner
banner