Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mið 14. febrúar 2018 12:30
Magnús Már Einarsson
Varnarmaður Dalvíkur/Reynis slær í gegn sem tónlistarmaður í Kólumbíu
Snorri Eldjárn (til hægri) í leik með Dalvík/Reyni gegn Gróttu fyrir nokkrum árum.
Snorri Eldjárn (til hægri) í leik með Dalvík/Reyni gegn Gróttu fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Snorri Eldjárn Hauksson, varnarmaður Dalvíkur/Reynis í 3. deildinni, hefur í vetur slegið í gegn sem tónlistarmaður í Kólumbíu. Lag sem Snorri setti á internetið vakti athygli og vinsældir hans á samfélagsmiðlum urðu miklar í kjölfarið.

Vinsældirnar urðu það miklar að sett var upp tónleikaferðalag sem Snorri hefur verið í undanfarnar vikur. Snorri veit ekki hvað verður um fótboltann hjá sér í sumar en segir ljóst að hann spili með Dalvík/Reyni ef hann verður staddur á Íslandi.

„Ef ég verð heima í sumar þá spila ég klárlega þar. Dalvíkur/Reynis hjartað slær ávallt og erfitt að skipta um félag," sagði Snorri við Fótbolta.net.

Vegna anna í tónlistinni hefur Snorri ekki náð að æfa fótbolta í Kólumbíu.

„Ég hef verið að reyna að fá umboðsmann minn til að koma mér á æfingar einhvers staðar en það hefur ekki gefist tími til þess ef satt skal segja. Þetta hefur verið stanslaus vinna og frekar grátlegt þar sem maður var kominn í óvenjugott form í janúar svona miðað við mín fyrri ár og var farinn að hlakka til að spila í sumar í mínu besta formi."

Íslenska landsliðið hefur vakið heimsathygli undanfarin ár og Snorri finnur fyrir því í Kólumbíu.

„Ef ég er spurður út í það hvað ég geri heima finnst þeim mjög merkilegt að ég spili líka fótbolta. Þetta er töluvert öðruvísi hérna úti þar sem 42 milljónir búa og einungis 2 deildir miðað við 340 þúsund heima og 5 deildir. Það er í rauninn fáránlegt hvað við höfum það gott heima og verður maður stundum að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur."

„Þetta er klárlega að sýna sig í árangri landsliðsins. Næstum allir sem þekkja eitthvað til Íslands minnast fyrst á kuldann, norðurljósin og svo Ísland á HM. Fólk hefur það á orði að riðillinn verði erfiður en það er gaman að sjá að árangurinn vekur athygli hérna úti,"
sagði Snorri að lokum.

Áhugasamir geta fylgst með ferðalaginu á @snorrimusic á Instagram eða Snorri Music á Facebook.
Athugasemdir
banner
banner